Flestir styrkja Team Heiðu
Hlaupahópi Ölla gengur líka vel að safna
Á dögunum greindum við frá því að fjöldi Suðurnesjamanna hyggðist hlaupa til góðs í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 23. ágúst. Þar á meðal er Team Heiða en sá hópur hleypur í nafni Keflvíkingsins Bjarnheiðar Hannesdóttur. Hlaupahópurinn hefur nú þegar safnað rúmlega 1.3 milljónum en það er það langmesta sem safnast hefur hjá hópi vegna hlaupsins. Markmið hópsins er að safna nægu fjármagni svo að Heiða komist í stofnfrumu meðferð erlendis og að styðja við bakið á henni og hennar fjölskyldu.
Hlaupahópur Ölla (Örlygs Arons Sturlusonar heitins) hefur einnig verið duglegur að safna og er meðal efstu hópa. Þar ætla vinir og fjölskylda Njarðvíkingsins Örlygs, sem lést fyrir aldur fram, að styrkja minningarsjóð hans, en markmið sjóðsins er að styðja börn sem minna mega sín á Íslandi til íþróttaiðkunar.
Alls hafa safnast tæplega 30 milljónir til góðra málefna vegna hlaupsins en þeir sem hafa áhuga á að styrkja hlaupara geta kannað málið betur hér á hlaupastyrkur.is