Fleiri í ræktinni nú en í fyrra
Þeim fer fjölgandi sem taka þá ákvörðun um jólahátíðina að byrja í ræktinni strax eftir áramót. Hjá Sporthúsinu í Reykjanesbæ æfa nú 17 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra. Að sögn Ara Elíassonar, eiganda Sporthússins í Reykjanesbæ, hefur sú breyting orðið á að fólk skrái sig fyrr á námskeið en áður. „Núna var mikið um að fólk skráði sig á námskeið á milli jóla og nýárs. Áður hafa flestir skráð sig í fyrstu og annarri viku janúar en það er nú breytt sem er hið besta mál,“ segir hann.
Hjá Sporthúsinu er 12 vikna áskorendakeppni í Superformi og þegar opnað var fyrir skráningu á milli jóla og nýárs fylltist á námskeiðið á 30 klukkutímum. Einnig fylltist fljótt á grunnnámskeið í Crossfit sem byrjaði í janúar og kominn er biðlisti á annað námskeið sem hefst í febrúar. Ari kveðst ekki hafa upplifað slíka ásókn áður. „Við erum því bjartsýn og hlökkum til að takast á við þessa törn sem framundan er.“ Mörg námskeiðanna hjá Sporthúsinu eru í gangi allt árið og segir Ari það leggjast vel í fólk og að sífellt fleiri skrái sig á þau og stundi æfingar allt árið um kring.
Ari segir fólk yfirleitt halda út í ræktinni og mæta vel fram í maí, þá fari aðeins að hægjast um og svo komi fjöldi fólks aftur þegar haustar. Það er ekki aðeins eftir jólin sem margir ákveða að taka sig á varðandi lífsstíl því Ari segir að í mánuð eftir páska sé alltaf góð törn. „Þá vill fólk koma sér í strandskýluform fyrir sumarið.“