Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 12. september 2002 kl. 08:38

Fjöreggjaleikurinn að hefjast hjá Fjörheimum

Eftir sumarfrí hefur félagsmiðstöðin Fjörheimar opnað og er margt á dagskránni í vetur að sögn Hafþórs Barða Birgissonar, forstöðumanns Fjörheima. Í kvöld klukkan 8 hefst skráning í Fjöreggjaleikinn, en þetta er í fjórða sinn sem leikurinn er haldinn á vegum Fjörheima. Hafþór segir að unglingar í Reykjanesbæ hafi tekið leiknum vel: “Fyrsta árið voru 27 þátttakendur, en í fyrra voru þeir 84 þannig að þetta hefur vaxið stig af stigi. Við vonum bara að enn fleiri verði með í ár," segir Hafþór. Fjöreggjaleikurinn byggist upp á því að þrír einstaklingar mynda hvert lið og hlutverk liðsins er að koma fram með allskyns hugmyndir að skemmtikvöldum eða sjá um skipulagningu á atburðum í félagsmiðstöðinni. Hvert lið fær stig fyrir hverja hugmynd og eins ef liðið skipuleggur og sér um framkvæmdina. Hafþór segir að veitt séu verðlaun í hverjum mánuði fyrir bestu virkni, besta andann og skipulag: “Það lið sem vinnur í hverjum mánuði fær að ráða hvort það fer í Bláa lónið, út að borða, eða fer í bíó." Leiknum lýkur í mars og þá munu öll liðin fá það erfiða hlutverk að velja einn stað á landinu sem það vill fara á og liðið sem vinnur Fjöreggið fær fría ferð á þann stað sem meirihlutinn velur. Síðust þrjú árin hafa Vestmannaeyjar orðið fyrir valinu hjá liðunum sem hafa tekið þátt í Fjöregginu. Hafþór segir að þessi leikur sé upprunnin frá Bretlandi og að þar hafi hann gengið mjög vel: “Markmiðið með þessum leik er að skapa unglingalýðræði og fá unglingana til að vera ekki bara neytendur, heldur gerendur," segir Hafþór að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024