Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölþætt heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+ í Reykjanesbæ
Frá fræðslufundi með Dr. Janusi á Nesvöllum.
Sunnudagur 1. október 2017 kl. 06:00

Fjölþætt heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+ í Reykjanesbæ

-Megin viðfangsefnið er forvarnarstarf og heilsuefling hjá eldri borgurum

Áður en formleg þjálfun í verkefninu „Fjölþætt heilsurækt í Reykjanesbæ – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+“ hófst, um miðjan maí 2017, sýndu niðurstöður mælinga að hreyfigeta þátttakenda í Reykjanesbæ er góð. Hins vegar var dagleg hreyfing allt of lítil, langt undir markmiðum alþjóðlegra og íslenskra viðmiðana. Þá vantaði nokkuð upp á að afkastageta næði normum alþjóðlegra viðmiða.

Frá því um miðjan maí hefur markvisst verið unnið með hóp eldri íbúa Reykjanesbæjar til að ná þeim markmiðum og normum sem alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir og Embætti landlæknis setur. Þá er einnig stefnt að ákveðnum markmiðum sem eldri einstaklingar hafa flestir í huga; að geta dvalið sem lengst í eigin búsetu, sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er, viðhaldið eða aukið lífsgæði á efri árum, forðast eða seinkað of snemmbærri innlögn á hjúkrunarheimili og dvalið lengur á vinnumarkaði kjósi þeir það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fjölþætt heilsurækt í Reykjanesbæ – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+“ er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Sóknaráætlunar Suðurnesja og Janusar heilsueflingar slf. Fyrirmynd þess er sótt í doktorsverkefni dr. Janusar Guðlaugssonar, PhD íþrótta- og heilsufræðings. Reykjanesbær er fyrst sveitarfélaga í landinu til að styðja verkefnið og fylgja því markvisst eftir. Megin viðfangsefnið er forvarnarstarf og heilsuefling á sviði líkams- og heilsuræktar fyrir eldri aldurshópa í Reykjanesbæ. Niðurstöður doktorsrannsóknarinnar sýndu að með markvissri fyrirbyggjandi heilsurækt eldri aldurshópa megi efla verulega afkastagetu þeirra og lífsgæði, ásamt því að draga úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Lífsstílsbreyting er langhlaup en ekki spretthlaup
Verkefnið hófst með kynningu og skráningu sjálfboðaliða á vormánuðum 2017. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og eru 126 einstaklingar á aldrinum 65 til 94 ára sem skráðu sig til þátttöku. Mjög lítið brottfall hefur verið að sögn Janusar og almenn ánægja með verkefnið. Hins vegar sé mikið verk óunnið, sé litið til grunnmælinga. „Þessi hópur er hins vegar alveg einstakur þar sem vilji og metnaður fyrir bættri heilsu leiðir þau áfram. Það er ekki einfalt mál að koma inn lífsstílsbreytingum hjá eldri aldursópum og þar skiptir jákvætt hugarfar höfuðmáli.“ Staða þátttakenda verður tekin aftur að loknum sex mánuðum eða í nóvember nk. Þá munu mælingar leiða í ljós hvernig verkefninu miðar. „Athyglisvert verður að velta fyrir sér hvort staðan hjá þessum aldurshópi endurspegli þá stöðu sem er í samfélaginu eða hjá eldri íbúum í Reykjanesbæ,“ segir Janus Guðlaugsson, stjórnandi verkefnisins. Þess má geta að Reykjanesbær tekur þátt í verkefni Embættis landslæknis, heilsueflandi samfélag og fellur verkefni Janusar einstaklega vel að þeim markmiðum sem þar eru sett fram.

Janus segir mikilvægt að vinna gegn þáttum sem stuðla að þróun kyrrsetulífsstíls með aukinni daglegri hreyfingu, breyttri og bættri matarmenningu, nægum svefni og breyttum hugsunarhætti. „Ýmislegt er gert til að þessir þættir nái fram að ganga en þeir falla allir undir þá áætlun sem þátttakendur eru nú að fylgja. Lífsstílsbreyting er maraþonhlaup en ekki spretthlaup. Það sem skiptir máli fyrir þátttakendur er að viðhalda þeim lífsstílsbreytingum sem þegar hafa litið dagsins ljós eða eiga eftir að gera það að lokinni sex mánaða þjálfun. Því er nauðsynlegt að styðja þau áfram í þessu breytingarferli hafi þau áhuga að halda því áfram.“

Grunnmælingar komu á óvart
Grunnmælingar í maí leiddu ýmislegt í ljós og margt kom á óvart, að sögn Janusar. Þó svo að hreyfigeta hafi verið góð hjá þátttakendum var dagleg hreyfing allt of lítil. „Þessi litla daglega hreyfing eða um tíu mínútur af þeim þrjátíu sem viðmiðið er, kom ef til vill ekki á óvart sé miðað við innlendar og erlendar rannsóknir. Aftur á móti komu aðrir þættir tengdir kyrrsetu-lífsstíl og slöku mataræði nokkuð á óvart. Líkamsþyngdarstuðull var of hár og mittis- og mjaðmamálshlutfall of hátt. Þá eru niðurstöður úr mælingu á efnaskiptavillu verulegt áhyggjuefni, ekki aðeins hjá okkur heldur fyrir heilbrigðisyfirvöld í komandi framtíð.“

Að sögn Janusar tengist efnaskiptavilla fimm breytum eða mælingum sem eru ummál mittis, blóðþrýstingur, blóðsykur, þrígleseríð og góða kólesterólið. Þegar þrjár af þessum fimm breytum eru yfir eða undir ákveðnu alþjóðlegu normi telst viðkomandi vera með efnaskiptavillu. Þá verða líkurnar á vanda hans í hjarta og æðakerfinu áttfalt meiri að mati sérfræðinga en þegar þessi atriði eru í lagi. „Rúmlega 30% þátttakenda glíma við þennan vanda. Það verður að koma til kröftug áhersla á forvarnarleiðina hjá heilbrigðisyfirvöldum á næstu árum svo ekki skapist meiri vandi en er nú þegar til staðar. Forvarnarleiðin er í mýflugumynd eins og er.“

Þátttakendur hafa fengið að vita um sína stöðu í öllum grunnmælingum til að geta brugðist við. Þau fá fræðslu um niðurstöður og hvað þær þýða. Nú erum við á þeirri vegferð að færa þessa hluti í samvinnu til betri vegar, einstaklingunum og samfélaginu til hagsbóta. Hvað það telur langan tíma er ekki gott að segja en aðgerða er þörf.