Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölsóttir fundir um stripp í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 30. desember 2010 kl. 10:46

Fjölsóttir fundir um stripp í Reykjanesbæ

„Ég villtist inn á skrifstofu Víkurfrétta haustið 1999 og var svo heppin að fá starf þar sem blaðamaður, síðar fréttastjóri. Þá hófust tvö ævintýraleg ár í lífi mínu. Starfið var svo skemmtilegt að mér leið aldrei eins og ég væri í vinnu. Ég leit á það sem forréttindi að fá að kanna samfélagið með augum blaðamannsins. Það gaf mér tækifæri á að vera viðstödd ýmsa merkisviðburði og kynnast fjölbreyttum persónuleikum sem lituðu mannlífið á Suðurnesjum á þessum tíma,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir sem starfaði sem blaðamaður á Víkurfréttum á árunum 1999 til 2001.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Eitt eftirminnilegasta viðtalið sem ég tók var við Reyni „Blaupunkt“ í Rockville. Það var mitt fyrsta viðtal og ég vissi í raun ekki alveg hvað ég ætti að spyrja manninn um. Hann var fyrsti íbúi Rockville og hafði þar á undan lifað á götum Reykjavíkur, forfallinn alkóhólisti. Viðtalið gekk vel og í kjölfarið fylgdist ég vel með uppbyggingunni í Rockville. Ég sat nánast hvern einasta bæjarstjórnarfund og þá er mér efst í huga hin eldfima umræða um „Stóra-Casino-málið“, þ.e. hvort leyfa ætti stripp í Reykjanesbæ. Sitt sýndist hverjum og þeir fundir sem höfðu þetta mál á dagskrá voru sérstaklega vel sóttir af bæjarbúum.


Ég fylgdist vel með undirbúningi og framkvæmd fyrstu Ljósanæturhátíðarinnar, synti með höfrungum í Garðsjó í boði Tomma Knúts, skoðaði starfsemi Thermo Plus, heimsótti mótorhjólaklúbbinn Fáfni í Grindavík og fór með þeim í smá hjólatúr, tók viðtal við dæmdan morðingja á Kvíabryggju og fór í veiðiferð með netabáti frá Grindavík“. Silja segir að starfið á Víkurfréttum hafi gefið sér innblástur og aukna lífsreynslu. „Síðast en ekki síst var gríðarlega skemmtilegt að vinna með samstarfsfólkinu á VF og fara með þeim í ferðalag til Dyflinnar, í tilefni af 20 ára afmæli VF,“ rifjar Silja upp.
Aðspurð um árið sem er að líða, sagði Silja Dögg.


„Þegar ég lít til baka yfir árið 2010 á eru síðustu bæjarstjórnarkosningar mér sértaklega eftirminnilegar, þar sem ég tók í fyrsta sinn virkan þátt í framboði Framsóknar og skipaði annað sætið á listanum. Það var mjög gefandi og lærdómsríkt ferli en að sama skapi talsverð vonbrigði þegar sjálfstæðismenn héldu hreinum meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.


Síðustu tvö ár hafa verið tími tiltektar og endurskoðunar, í þjóðfélaginu öllu og hjá mér sjálfri. Þjóðin er nýkomin á gelgjuskeiðið, í samanburði við þróunarstig annarra vestrænna ríkja, og hefur aðeins misst sig í „nýfengnu“ frelsi. Það tekur tíma að þroskast og fullorðnast og frelsi er vandmeðfarið. Ég trúi því að árið 2011 verði ár uppbyggingar og lít það björtum augum. Framtíðin er spennandi áskorun“.