Fjölskyldusamveran best um páskana
Ætlar að heimsækja foreldra sína á Skagaströnd.
Auður Eva Guðmundsdóttir, verslunarstjóri í Dýrabæ í Krossmóa, ætlar að skella sér norður á Skagaströnd um páskana. „Þar búa mamma og pabbi ennþá. Ég ætla að taka manninn minn og tvo litlu strákana okkar til að hitta ömmu og afa og borða páskaegg.“ Varðandi tegund páskaeggja segist Auður Eva vera búin að flakka mikið á milli Freyju og Nóa Síríus en finnist þau jafn góð. „Ég kaupi yfirleitt alltaf Ríseggið frá Freyju, finnst það langbest. En svo er ég að spá í að fá mér venjulegt frá Nóa Síríus núna.“
Það besta við páskana segir Auður Eva vera fjölskyldusamveran. „Það eru nokkrar stundur þar sem við viljum vera með fólkinu okkar. Ég bý í Sandgerði og nota flestöll svona tækifæri til að hitta fólkið mitt fyrir norðan,“ segir hún. Þá sé veturinn búinn að vera allt í lagi, ekkert of snjóþungur og ekki erfið færð, sem sé gott vegna þess að hún keyri í vinnuna úr Sandgerði. „Það er líka búið að vera nóg að gera í búðinni og mér finnst Reykjanesbær vera að byrja að blómstra svolítið,“ segir Auður Eva að lokum.