Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölskyldur gleðjast saman
Fimmtudagur 27. ágúst 2015 kl. 15:01

Fjölskyldur gleðjast saman

- á Sandgerðisdögum

Sandgerðisdagar voru settir formlega í gærkvöldi á hátíðardagskrá í safnaðarheimilinu í Sandgerði. Þar var myndarleg tónlistardagskrá þar sem fram komu m.a. KK, hljómsveitin Eva, Vox Felix, Amelía og Viktoría. Fyrr um daginn var setningarathöfn sem nemendur í grunnskólanum og leikskólanum tóku þátt í þar sem söngvarinn Páll Óskar fór með stórt hlutverk eins og sjá má á forsíðu Víkurfrétta í dag.

Sandgerðisdagar hófust óformlega á mánudagskvöld með heimboði í græna hverfið þar sem boðið var upp á fiskisúpu og götustemmningu.

Í dag, fimmtudag, er Loddugangan einn af stóru viðburðum dagsins en hún er reyndar bönnuð yngri en 18 ára. Sundlaugarpartý verður fyrir 8. bekk og eldri þar sem Steindi jr. og Bent halda uppi stuði. Pétur Jóhann Sigfússon verður óheflaður í Samkomuhúsinu og síðdegis verður svo leikur á K&G vellinum milli Reynis og Kára í 3. deildinni.
Stærsti viðburður föstudagsins verður 80 ára afmæli Reynis í íþróttahúsinu þar sem fram koma m.a. Páll Óskar, hljómsveitin Konukvöl og Ingó Veðurguð. Fyrr um daginn verður tónlistarskólinn með opið hús, sápubolti verður á knattspyrnusvæði Reynis og svo leikur milli Norðurbæjar og Suðurbæjar.

Sandgerðisdagar ná hámarki á laugardag með viðamikilli dagskrá. Þá veður golfmót, dorgveiði, handavinnumarkaður og vígsla á nýjum körfuboltavelli, svo eitthvað sé nefnt. Dagskrá fyrir alla fjölskylduna verður á hátíðarsvæði við grunnskólann, annarsvegar frá kl. 14-16:30 og svo aftur frá kl. 20:30-22:30 sem endar svo með flugeldasýningu. Á kvölddagskránni verða meðal annars Sóli Hólm, Trilógía, Kenneth Máni og Stjórnin. Þá verður hverfaganga frá Vörðunni kl. 20 þar sem bæjarbúar sameinast í öllum regnbogans litum.

Á sunnudeginum verður svo messað í Hvalsneskirkju kl. 11:00. Nánar má kynna sér dagskrá Sandgerðisdaga á vef Sandgerðisbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024