Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fjölmenningunni fagnað í Sandgerði
Föstudagur 18. mars 2016 kl. 10:16

Fjölmenningunni fagnað í Sandgerði

Á þemadögum í Grunnskólanum í Sandgerði í vikunni var lögð áhersla á fjölmenningu. Þemadögunum lauk í gær með sýningu og dansi þar sem foreldrar, ættingjar og vinir tóku þátt. Skólahópur leikskólans Sólborgar tóku fullan þátt í þemadögum líkt og oft áður. Í Grunnskólanum í Sandgerði eru 224 nemendur og þar af er 31 nemandi af erlendu bergi brotinn. Auk þess tengjast nemendur skólans ættartengslum til 24 landa á einn eða annan hátt.

Að sögn Fanneyjar Dóróthe Halldórsdóttur, skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði er fjölmenning vel heppnuð samblöndun ólíkra menningarhefða. „Þegar talað er um fjölmenningarlegt samfélag er átt við samfélag þar sem fólk af ólíkum uppruna, með ólíka siði, hefðir, menningu og tungumál býr og starfar saman á jafnréttisgrundvelli,“ segir hún. Á þemadögunum unnu nemendur með og lærðu um hinar ýmsu menningarhefðir í gegnum dans, tónlistarflutning, myndlist og sköpun,  lestur, bakstur og leiki svo eitthvað sé nefnt. Fanney segir mikinn áhuga nemenda, gleði og forvitni hafa einkennt vinnu vikunnar.

Bæjarfélagið er nú að endurskoða fjölmenningarstefnu sína í samvinnu við skólana en henni er ætlað að vera samofin við þjónustu, viðhorf og gildi bæjarfélagsins. „Nemendur eru upprennandi kynslóð einstaklinga sem koma til með að lifa í samfélagi sem er ríkt af menningu margra þjóða. Þar af leiðandi er mikilvægt að þeir þekki menningarheima heimsins. Fordómar eru byggðir á fáfræði og því er mikilvægt að börnin okkar þekki vel til þeirra þjóðarbrota sem búa á Íslandi,“ segir Fanney. Fjölmenningarstefna Sandgerðiðsbæjar og móttökuáætlun skólanna á að vera lýsandi fyrir hvers konar samfélag íbúar Sandgerðis vilja og endurspegla þau gildi sem skólinn og bæjarfélagið vill byggja á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elstu nemendur leikskólans Sólborgar tóku þátt í dansinum.