Fjölmenni og fjör á laugardegi á Ljósanótt - lokadagur í dag
Dagskrá Ljósanætur í Reykjanesbæ fór með eindæmum vel fram í gær á þriðja degi hátíðarhaldanna. Stanslaus fjölskyldudagskrá var á sviði allan daginn í bland við fjölbreytta dagskrá um allan bæ og í gærkvöldi tóku við stórtónleikar á útisviði þar sem m.a. var boðið upp á dagskrá til heiðurs Rúnari Júlíussyni sem hefði orðið sjötugur í ár. Dagskráin náði hápunkti með glæsilegri flugeldasýningu HS ORKU þar sem flugeldar tókust á loft bæði ofan af Berginu svokallaða, sem og af haffletinum sjálfum, rétt utan við hátíðarsvæðið og sköpuðu einstakt sjónarspil þrátt fyrir nokkuð þokuloft.
Fjórði dagur hátíðarhaldanna tekur við í dag og þá skapast tækifæri til að skoða þær sýningar sem enn standa út af í þéttri fjögurra daga dagskrá Ljósanætur. Sú skemmtilega nýbreytni í ár er að íbúar Hafna, sem er eitt þeirra þriggja sveitarfélaga sem mynda Reykjanesbæ með um 100 íbúa, bjóða til hátíðar með tónleikum Elízu Geirsdóttur sem þar býr og Bjartmar Guðlaugssyni, myndlistarsýningum og sagnamönnum. Þá verður botninn sleginn í hátíðarhöldin með tvennum hátíðartónleikum, Með blik í auga V, í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Sýningin kallast Lög unga fólksins og er um að ræða tónlistarveislu í bland við góðar sögur og skemmtilega umgjörð.
Reykjanesbær þakkar gestum Ljósanætur fyrir frábæra helgi, óskar öllum góðrar heimferðar og vonast eftir að hitta ykkur á nýjan leik að ári, segir í tilkynningu frá bænum.
Hér má sjá nokkrar myndir frá fjörinu á laugardag, fleiri myndir eru væntanlegar á vf.is.