Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölmennasta Skötumessan frá upphafi - skatan kláraðist!
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 19. júlí 2019 kl. 11:59

Fjölmennasta Skötumessan frá upphafi - skatan kláraðist!

Skötumessan sem haldin var í Miðgarði í Gerðaskóla í vikunni er sú fjölmennasta hingað til. Um 500 manns mættu í veisluna. Skötumessan er árlegur viðburður. Hún er ávallt haldin á miðvikudegi næst Þorláksmessu á sumri, sem er 20. júlí.

Allir sem koma að skötumessunni gefa vinnu sína og ágóðinn rennur óskiptur til góðgerðarmála. Að þessu sinni voru veittir styrkir og gefnar gjafir fyrir á fimmtu milljón króna. Stærsta gjöfin var tölvustýrð dúkka sem Björgunarsveitin Suðurnes fékk að gjöf. Dúkkan er til æfinga á endurlífgun og fyrstu hjálp á vettvangi. Auk Skötumessunnar þá lögðu Vísir, félag skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis til verulegar fjárhæðir til kaupa á þjálfunarbúnaðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á skötumessunni eru í boði skata, saltfiskur og plokkfiskur ásamt tilheyrandi meðlæti. Í ár lentu veisluhaldarar í því að skatan kláraðist því aðsóknin í hana var miklu meiri en áður. Kokkar voru því ræstir út og fiskmeti sett í potta þannig að allir gætu fengið að borða. Skötumessustjórar lofa því að þetta muni ekki gerast aftur og að ári verða án efa skötufjöll á veisluborðinu í Garði.

Meðfylgjandi myndasafn er frá veislunni. VF-myndir: Hilmar Bragi

Skötumessan í Garði 2019