Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjöllistakonan Berta
Laugardagur 15. mars 2014 kl. 16:17

Fjöllistakonan Berta

- Grindvíkingurinn Berta Ómarsdóttir er skapandi söngkona

Berta Ómarsdóttir hefur allt frá barnæsku verið syngjandi og skapandi. Hún var vön að standa uppi á stól svo að hún næði örugglega athygli allra en henni hefur aldrei leiðst athyglin að eigin sögn. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur lært fatahönnun, söng og ítölsku. Ung að árum fór hún sem skiptinemi til Kosta Ríka þar sem hún kynntist framandi menningu. Það má með sanni segja að Berta sé skapandi og ævintýragjörn ung kona.

Berta er 29 ára Grindavíkurmær. Hún lauk á sínum tíma stúdentsprófi frá FS en hefur síðan komið víða við. Í vor lauk hún Burtfaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík í klassískum söng og stundar nú söngkennaranám við skólann. Hún er þegar komin með nokkra nemendur og vinnur í hlutastarfi í móttöku Söngskólans. Það hefur verið nóg að gera í söngnum hjá henni en hún hefur einnig verið að semja sína eigin tónlist. Berta vann Söngvakeppni Samsuð í einstaklingskeppninni bæði þegar hún var í 9. og 10. bekk. Hún tók einnig þátt í Hjóðnemanum í FS á sínum tíma. Berta var alltaf mikið í kringum mömmu sína í kirkjunni en hún var sóknarprestur í Grindavík. „Ég söng í kirkjukórnum frá því að ég man eftir mér. Sögur segja að ég hafi verið svo ung þegar ég byrjaði að ég hélt stundum á bókunum á hvolfi af því að ég vissi ekki hvernig þetta átti að snúa - kunni ekki að lesa,“ en Berta lærði einnig á blokkflautu og píanó í tónlistarskólanum í Grindavík sem barn, ásamt því að syngja við hvert tækifæri.

Humarhattur og sólblómakjóll

Það er ekki eingöngu tónlist sem á hug Bertu en hún hefur lengi verið viðriðin list af ýmsu tagi. 12 ára gömul fór hún á sumarlistanámskeið á Akureyri. „Þetta voru nokkurs konar sumarbúðir; fyrir hádegi var myndlist tekin fyrir, eftir hádegi voru sirkuslistir og hönnun. Þar fékk ég mikinn áhuga á að leika með eld og POI - sem eru boltar í bandi sem maður snýr í kringum sig,“ segir Berta. Á menntaskólaárunum var hún í sirkushópnum, Sirkus Atlantik en hópurinn fór m.a. saman til Svíþjóðar í Workshop á vegum CircusCirkör og hélt tvær sýningar. „Heima í Grindavík var ég leiðbeinandi á sumarsirkusnámskeiði, sem var einstaklega skemmtilegt.“ Berta hefur komið víðar við í listinni en hún tók þátt í LUNGA (Listahátíð Ungs fólks á Austurlandi) á Seyðisfirði þrjú sumur. Þar keppti hún í hönnunarkeppnum og söng. Fyrsta árið fékk hún verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina en þá bjó hún til hatt úr humri. „Módelið mitt bar einungis hattinn í keppninni og var í g-streng, annars var hún bara body-máluð,“ segir Berta sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á að skapa og búa til. Hún tók þátt í Hönnunarkeppni grunnskólanna þar sem hún gerði kjól úr notuðu fiskneti. Í Hönnunarkeppni menntaskólanna hannaði hún svo sólblóma-kjól. Þannig kviknaði sú hugmynd að fara í fatahönnunarnám en það nám stundaði hún á Ítalíu. Þar lauk hún gráðu í fatahönnun frá listaháskóla í Flórens árið 2005.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ítalska er tungumál tónlistarinnar

„Árið á Ítalíu var draumi líkast og ég kolféll fyrir landi og þjóð. Þegar ég kom heim eftir það ævintýri ákvað ég að stúdera tungumálið enn frekar af því að ég vissi, og veit, að ég mun fara þangað aftur,“ því lærði hún ítölsku með listfræði sem aukagrein í Háskóla Íslands eftir dvölina á Ítalíu. Hún hefur nýtt ítölskuna vel en á sumrin hefur hún starfað sem leiðsögumaður fyrir ítalska ferðamenn. Einnig nýtist tungumálið vel í tónlistarnáminu, bæði er tungumál tónfræðinnar helst til ítalska og svo er mikið af aríum og óperum á ítölsku. Það er ekki bara ítalskan sem kemur sér vel. Berta er dugleg að sauma og nýta föt í hönnun sína.
„Á útskriftardeginum mínum frá Háskóla Íslands var ég í eigin hönnun. Kjóllinn var saumaður úr gömlu IKEA sængurveri og hlýrana prjónaði ég úr götóttum sokkabuxum, blankur neminn reddar sér. Ættingjar hafa stundum látið mig hafa poka með gömlum fötum eða efnum sem ég hef nýtt, lagað til og gengið í sjálf,“ segir hönnuðurinn Berta.

Kosta Ríka er algjör paradís

Þegar Berta var unglingur langaði hana að fara og skoða heiminn sem skiptinemi.
„Þetta var stór draumur í mínu lífi að fara út sem skiptinemi. Foreldrar mínir voru ekki eins spenntir og þau héldu eins lengi í mig og þau gátu. Ég fór út þegar ég var 17 ára en planið var að fara þegar ég var 15 ára,“ segir Berta og hlær. Kosta Ríka í Mið-Ameríku varð fyrir valinu en Berta segir staðinn vera algjöra paradís. Hún bjó í litlum bæ í fjöllum Kosta Ríka þar sem hitastigið er í kringum 40 gráður allan ársins hring.
„Ég bjó fyrst um sinn hjá mjög brotinni fjölskyldu. Næst elsta dóttirin á heimilinu átti tvö börn með giftum manni; það gjörsamlega rústaði fjölskyldunni. Í þessu kaþólska samfélagi var litið á þetta sem mikla skömm, og öll fjölskyldan var á leiðinni til helvítis. Á hverjum morgni kom bænahópur frá kirkjunni inn á heimilið til að reyna að hreinsa fjölskylduna af þessari hræðilegu synd.“ Berta var hjá fjölskyldunni fyrstu níu mánuðina en þá fékk hún flutning til vinafólks sem hún var búin að mynda góð tengsl við. Þar var fremur þröngt á þingi en Berta deildi rúmi með annarri stúlku. „Við vorum átta á heimili en aðeins fjögur einbreið rúm. Við þvoðum okkur öll upp úr sama vatninu úr bala á hverjum morgni og klósettpappírinn fór í ruslafötu eftir notkun.“
Berta sigraði enn eina söngvakeppnina innan skólans í Kosta Ríka er hún söng spænskan texta við lagið Zombie, eftir Cranberries. Hún og þýsk vinkona hennar bjuggu til textann sjálfar út frá eigin reynslu af landinu. „Vinir mínir og fjölskylda í Kosta Ríka fóru mjög oft með mig á karaokebari og vildu endalaust hlusta á mig syngja sömu lögin. Þau spyrja reglulega á facebook enn í dag hvernig gangi í söngnum og hvenær þau fái að sjá mig syngja á stóru sviði í sjónvarpinu. Styðja mig heilshugar í tónlistinni,“ segir Berta sem á augljóslega hlýjar minningar frá dvölinni í Mið-Ameríku.

Samdi tónlist við ljóð ömmu sinnar

Nóg er framundan hjá Bertu þegar kemur að tónlistinni en í mars mun hún m.a. halda einsöngstónleika ásamt Sigurði Helga píanóleikara í Grindavík. Flutt verða íslensk sönglög um hafið. Jólavertíðin var annasöm hjá Bertu bæði hvað varðar kórastarf og einsöng. Þar söng hún m.a. allar helgar í Viðey fyrir matargesti. Í lok janúar var hún með einsöngstónleika í Háteigskirkju, en hún hefur komið fram um allar tryssur undanfarin ár. „Sumarið 2012 söng ég á fernum tónleikum ásamt Bergþóri Pálssyni, Garðari Thor Cortes og Aðalheiði Þorsteinsdóttur fyrir austan. Þar var frumflutt tríó eftir mig sem ég samdi við ljóð ömmu minnar, Oddnýjar Aðalbjörgu,“ segir Berta stolt. Hún ætlar sér að elta söngdrauminn og stefnan er tekin á frekara nám á Ítalíu. „Ég er ævinlega þakklát sjálfri mér að hafa tekið þá ákvörðun að elta drauminn minn um að syngja, það er það skemmtilegasta sem ég geri. Draumurinn er að flytja til Ítalíu næsta haust og fara í mastersnám í klassískum söng við góðan háskóla þar. Ég er búin að fara út að skoða skóla og hitta nokkra kennara en ég á eftir að sækja um og fara í inntökupróf,“ segir söngkonan Berta að lokum.

Sumarið 2012 söng Berta á fernum tónleikum ásamt Bergþóri Pálssyni, Garðari Thor Cortes og Aðalheiði Þorsteinsdóttur fyrir austan. Þar var frumflutt tríó eftir Bertu sem hún samdi við ljóð ömmu sinnar, Oddnýjar Aðalbjörgu.

Berta við heimili sitt á Kosta Ríka. Þaðan á hún frábærar minningar.