Fjölbreytt náttúruvika framundan
Náttúruvika á Suðurnesjum verður 25. júlí til 2. ágúst nk. Hápunktur hátíðarinnar verður gönguhátíð í landi Grindavíkur en jafnframt verður ýmislegt annað um að vera í öllum bæjarfélögunum á Suðurnesjum sem bæjarbúar eru hvattir til að kynna sér.
Í Saltfisksetrinu verða uppstoppaðir fuglar til sýnis. Sunnudaginn 25. júlí bjóða Fjórhjólaævintýri upp á fjallahjólaferð með leiðsögn um Hópsnesið og þá verður önnur ferð út í Sandvík þar sem einnig verður hellaskoðun og grillveisla.
Gönguhátíðin í Grindavík verður glæsileg að vanda. Föstudaginn 30. júlí verður gönguferð um gamla bæjarhlutann og endað með söng á tjaldsvæðinu. Á laugardeginum verður gönguferð um Selatanga, á sunnudeginum verður gönguferð um Húshólma og á mánudeginum verður gönguferð að gömlu Tyrkjabyrgjunum.
Hægt er að kynna sér dagskrá náttúrvikunnar á www.natturuvika.is