Fjölbreytt jóladagskrá í Gerðaskóla
Í desember er margvísleg dagskrá skipulögð í Gerðaskóla og við finnum nýjar leiðir þessa dagana til að halda í gamlar hefðir. Stór hluti þess að fagna aðventunni felst í samveru á sal og með fjöldatakmörkunum getur það reynst örlítið flókið – en við lítum á þessar áskoranir sem tækifæri til að hugsa út fyrir kassann og aðlögum skipulagið okkar með áherslu á gleðiríkar jóla- og aðventustundir, höldum í hefðir og sköpum alltaf einhverjar nýjar líka.
Nemendur í 1.–7. bekk tóku þátt í tendrun jólaljósa á jólatré bæjarbúa þann 1. desember síðastliðinn. Söngstundir eiga sinn sess á aðventunni og hittust nemendur í smærri hópum og sungu jólalög við gítarundirleik Vignis Begmanns. Bækur skipa að sjálfsögðu stórt hlutverk í Gerðaskóla og fengum við nokkra rithöfunda í heimsókn með aðstoð tækninnar. Það vakti t.d. mikla lukku þegar nemendur í 4.–8. bekk hjálpuðust að í gegnum hluta af bók Ævars vísindamanns, Þín eigin undirdjúp, en í bókinni þurfa lesendur að taka ákvörðun um atburðarásina og velja úr valmöguleikum um næstu blaðsíður. Það gekk vonum framar að taka á móti rithöfundum með þessum hætti og frábært að geta kynnt spennandi skáldsögur fyrir nemendum.
Skólaumhverfið fær jólalega upplyftingu í desember og hafa bekkir t.d. keppt um best skreyttu jólahurðina en það er afar metnaðarfull og frumleg keppni. Í ár var ákveðið að breyta til og leggja áherslu á gluggaskreytingar í staðinn og lögðu nemendur sitt af mörkum í því verkefni. Síðustu vikuna fyrir jólafrí njóta nemendur og kennarar þess að vera saman í hlýju jólaljósanna og litlu jólin eru svo fastur liður í lok vikunnar. Þá horfa allir bekkir á myndband af helgileik sem nemendur í 4. og 5. bekk hafa sett upp en vegna aðstæðna nýtum við upptöku í stað þess að koma á sal. Það er því mjög lærdómríkt að takast á við breyttar aðstæður með nýjum leiðum og við nýtum hvert tækifæri sem gefst til þess að læra, segir í frétt frá Gerðaskóla.