Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölbreytt dekur á einum stað
Guðbjörg Óskarsdóttir, Ágústa Gizurardóttir, Álfhildur Guðlaugsdóttir og Hafdís Lúðvíksdóttir.
Laugardagur 1. febrúar 2014 kl. 09:15

Fjölbreytt dekur á einum stað

Fjórar vaskar konur sameinuðu krafta sína.

„Þetta er draumur sem við erum búnar að ganga með í mörg ár. Hafdís var búin að vera með stofu í þessum hluta Kjarnans og var bara ein þar. Svo stóð til að Álfhildur nuddari kæmi og yrði með Hafdísi en af því varð ekki. Vorum búnar að pæla í þessu og leita að staðsetningu og féllum fyrir þessu strax þegar Bergþóra stakk upp á þessari staðsetningu. Svo kom Guðbjörg inn í þetta og þá gátum við farið að gera tilboð og láta drauminn rætast,“ segir Ágústa Hildur Gizurardóttir, jógakennari, jógaþerapisti og einn af stofnendum fyrirtækis sem bjóða mun upp á fjölbreytta þjónustu margra aðila á einum stað. Ásamt Ágústu standa að þessu þær Hafdís Lúðvíksdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur, Álfhildur Guðlaugsdóttir, heilsunuddari og Guðbjörg Óskarsdóttir, hárgreiðslumeistari og eigandi Fimra fingra.


Blönduð þjónusta stórs hóps

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stöllurnar fengu húsnæðið afhent um áramótin og er heilmikið búið að gera síðan, m.a. setja upp tvo veggi og lagfæra aðeins herbergin þar sem áður voru skrifstofur Landsbankans. „Við erum komnar í Kjarna bæjarins, hér eru næg bílastæði og bæjarbúar þekkja bygginguna,“ segir Ágústa. Ferlið hafi gengið allt mjög vel, eftirspurn er mikil og eflaust hjálpi til að hægt er að nálgast þessa fjölbreyttu þjónustu á einum stað. „Það hefur stoppað mann þegar maður hefur ætlað að fara í einhvers konar þjónustu að þurfa að fá meðmæli með einhverjum og nálgast hann. Hér er þetta allt á einum stað og hægt að fá blandaða þjónustu og koma út sem ný manneskja,“ segir Ágústa og brosir.


Vantar gott nafn á staðinn

Þá verður jógasalurinn einnig nýttur og leigður úr fyrir fyrirlestra, fundi og annað. Helgarnar verða nánast alveg lausar og flestöll kvöld. „Svo verðum við í samvinnu við Vocal um léttan hádegisverð og ætlum að vera með hráfæði. Það vantar slíkt hér á svæðið.“ Laugardaginn 8. febrúar verður opnunarhátíð staðarins og eina sem vantar núna er gott nafn á starfsemina. Hér með er auglýst eftir tillögum að nafni og verða glæsileg verðlaun í boði. Tillögunum er hægt að koma á framfæri á Facebook-síðunum „Jóga með Ágústu Gizurar“ eða „Carisma snyrtistofa“.


Álfhildur Guðlaugsdóttir, heilsunuddari. 

Hafdís Lúðvíksdóttir, förðunar- og snyrtifræðingur. 

Aðalheiður Guðrún Halldórsdóttir, naglafræðingur, ásamt Ágústu Gizurardóttur. 

Guðbjörg Óskarsdóttir, eigandi hársnyrtistofunnar Fimir fingur. 

Linda Jósefsdóttir, fótaaðgerðafræðingur, ásamt tengdaföður sínum. 

Elsa Lára Arnardóttir, sjúkranuddari. 

Bjarnrún Tómasdóttir, svæðanuddari. 

 

Aðstaðan er mjög hlýleg og notaleg. 

Biðstofan.

Fleyg orð eru á veggjum. 

Þetta hangir uppi á ganginum. 

VF/Olga Björt