Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fjölbreytt dagskrá einkennir Ljósanótt 2004
Þriðjudagur 31. ágúst 2004 kl. 14:03

Fjölbreytt dagskrá einkennir Ljósanótt 2004

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin í fimmta sinn fyrstu helgina í september n.k.  Eins og venjulega er mikið kapp lagt á að bærinn verði í hátíðarbúningi þessa helgi og hafa bæjaryfirvöld, eigendur fyrirtækja og íbúar almennt tekið höndum saman og er allt umhverfi bæjarins nú að verða hið prýðilegasta.  Lokaframkvæmdir við Hafnargötuna verða m.a. vígðar og útilistaverk afhjúpuð.

Hátíðin stendur í fjóra daga og hefst með setningu við Myllubakkaskóla á fimmtudeginum 2. sept. Kl. 13.00.   Við setninguna beinum við athyglinni að fjölmenningarsamfélaginu sem ríkir í Reykjanesbæ en hér býr fólk af mörgum þjóðernum og í því sambandi má minnast þess að bærinn hefur tvisvar tekið á móti flóttamönnum.   Á fimmtudeginum verður einnig hagyrðingakvöld í Stapa þar sem landslið hagyrðinga mætir undir stjórn Karls Ágústs Úlfssonar.
 Fjöldi listviðburða þessa helgi er ótölulegur, a.m.k. 30 mismunandi sýningar og uppákomur eru tengdar myndlist og má þar m.a. nefna opnun á sýningu Ásu Ólafsdóttur í Listasafni Reykjanesbæjar og listgjörning við útisviðið á Hafnargötu á laugardagskvöldinu þar sem áhorfendum býðst tækifæri til að bjarga listaverkum frá eyðingu.  Tónlistin verður auðvitað áberandi og verður hægt að heyra allar tegundir tónlistar í bænum þessa helgi, jass, klassik, rokk, vísnasöng o.s.frv..  Guitar Islancio, Megas, Jagúar, o.fl. landþekktir tónlistarmenn munu koma fram ásamt fjölda hljómsveita úr Reykjanesbæ.  Í Frumleikhúsinu taka Hegla Braga og Steinn Ármann Vodkakúrinn og götuleikhópur leikfélagsins verður á ferðinni í bænum.  Listamaður Reykjanesbæjar, Gunnar Eyjólfsson tekur þátt í söguferð um slóðir Stjána bláa og þannig mætti áfram lengi telja.

Aðaldagurinn er laugardagurinn 4. sept. og þá verða fjölbreytt atriði víða um bæinn.  Tvö útisvið verða í notkun, annað í miðbænum þar sem fjölbreytt dagskrá verður frá kl. 13:00 og fram eftir kvöldi og hitt við ungmennamiðstöðina 88-húsið þar sem keflvískar hljómsveitir verða með tónleika frá kl. 16.30 til 20:00. Glæsileg flugsýning verður einnig haldin á laugardeginum, fornbílar aka um bæinn og alls kyns leiktæki verða fyrir börnin.  Kvölddagskráin hefst svo kl. 20:00 þar sem bæjarstjórnarbandið mun m.a. koma fram og Védís Hervör, sigurvegari Ljósalagskeppninnar 2004 mun syngja sigurlag sitt, Þessa einu nótt.  Hápunktur Ljósanætur verður svo kl. 22:00 þegar kveikt verður á ljósunum á Berginu ásamt magnaðri flugeldasýningu.

Á sunnudeginum verður rólegra yfir bænum.  Flestar myndlistarsýningarnar verða opnar og tvennir klassískir tónleikar verða í Listasalnum í Duushúsum.  Í Kirkjulundi verður haldin samkirkjuleg samkoma með kaffihúsastemmningu.

Margir hafa komið að undirbúningi þessarar hátíðar og afar jákvætt að æ fleiri fyrirtæki, hópar og einstaklingar taka orðið þátt í dagskránni. Allir hafa orðið sitt hlutverk og sinna því af kostgæfni.  Ljósanefndin vill koma á framfæri þökkum til allra sem unnið hafa að undirbúningi þessara glæsilegu hátíðar og óskar öllum góðrar skemmtunar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024