Fjölbreytileiki ekki eitthvað sem við eigum að hræðast
Bókin Fávitar og fjölbreytileikinn kemur út í vikunni en hún er sú þriðja í fræðslubókaröð Sólborgar Guðbrandsdóttur. Hún segir bækurnar vera kyn- og kynjafræðslubækur sem einblína á jafnréttismál og eru að mestu leyti skrifaðar fyrir unglinga. Fyrsta bókin bar heitið Fávitar og önnur bókin Aðeins færri fávitar en í nýju bókinni verður hinseginleikinn í brennidepli.
„Bókin fjallar um hinseginleikann, í henni fer ég yfir allskonar hliðar hinseginleikans. Ég tækla hann ekki allan en ég reyndi, á eins einfaldan máta og ég mögulega gat, að fræða fólk um hvað felst í því að vera hinsegin. Ég fer yfir ólíkar kynhneigðir og ólíka kynvitund, það er líka farið yfir reynslusögur hinsegin fólks á Íslandi í bókinni. Í henni má einnig finna ráðleggingar og svör frá ráðgjafa sem starfaði hjá Samtökunum ‘78 við spurningum um að koma út úr skápnum. Fremst í bókinni má einnig finna hugtakakafla með útskýringum á orðum sem fólk gæti kannski ekki skilið við lesturinn,“ segir Sólborg.
Ekki nóg að vera bestur í tossabekk
Hún segir að með því að tryggja grunnþekkingu samfélagsins á hinseginleikanum getum við skapað betra samfélag. Þá telur Sólborg það vera ábyrgð hvers og eins að afla sér þekkingar og upplýsinga um málefnið en jafnframt mikilvægt að fræða hvert annað, því fordómar eru samfélagslegt vandamál. „Það eru miklir fordómar enn þá í gangi á Íslandi þrátt fyrir að við séum komin langt miðað við önnur lönd. Fordómar eru samfélagslegt vandamál og að mínu mati er það okkar samfélagslega ábyrgð að reyna að horfast í augu við þetta og skilja af hverju hlutirnir eru svona og koma þannig í veg fyrir að þetta haldi áfram að grassera í samfélaginu okkar. Við eigum ennþá frekar langt í land og mér finnst það frekar gömul tugga að tala um að við séum best í jafnrétti á Íslandi ... það er einfaldlega ekki nóg að vera bestur í tossabekk. Við þurfum að halda áfram að reyna að fræða okkur sjálf og fræða hvert annað og grípa inn í þegar við verðum vitni að ofbeldi. Því að ofbeldi gegn hinsegin fólki er ekki bara eitthvað vandamál sem hinsegin fólk á að þurfa að tækla.“
Aðspurð hvernig hún afli sér upplýsinga og þekkingu á þessum málefnum kemur segir hún: „Ég hlusta og spyr. Ég tala við sérfræðingana okkar, ég vil reyna að læra og þannig kemst maður áfram með þetta. Í tengslum við bókina, þá er ég ekki sérfræðingur í hinsegin málefnum en það er fullt af hinsegin fólki sem kemur að bókinni. Aðilar að hagsmunasamtökum á borð við Samtökin 78, Trans Ísland, Intersex Ísland og Ásar á Íslandi lásu yfir efni í bókinni og hjálpuðu mér með ákveðnar útfærslur og leiðréttingar, sem ég er mjög þakklát fyrir. Þetta er alls ekki bók sem ég skrifaði ein.“
Ekki bara fyrir ungmenni
Sólborg segir bækurnar ekki aðeins hugsaðar fyrir ungmenni því mikið af fullorðnu fólki haldi oft fast í það hvernig hlutirnir voru hér einu sinni. „Ég einmitt skrifaði þessar bækur fyrir öll þannig þetta séu ekki bara unglingarnir sem ég er að hvetja til að fræðast. Ég held það sé oft mikilvægara að fræða starfsfólkið í skólum en að fræða nemendurna í skólum, að við fræðum foreldrana í staðin fyrir börnin. Það eru kynslóðirnar sem eru, því miður, stundum að halda fast í það hvernig þetta var í gamla daga en unga fólkið er móttækilegra fyrir þessum breytingum og jákvæðu þróun sem er að eiga sér stað hvað þessi málefni varðar,“ segir Sólborg og bætir við: „Ég er mjög ánægð með unga fólkið okkar sem er líka að garga og láta vita að þau vilji fá þessar breytingar í gegn og eru að krefjast þess af ráðherrum og skólastjórnendum að hlutirnir breytist. Þrátt fyrir að það séu svartir sauðir alls staðar þá held ég að þetta sé allt að þróast í rétta átt en það gerist ekki að sjálfu sér sem þýðir að við þurfum að halda þessari baráttu áfram.“
Fræðast án þess að hræðast
Á síðustu misserurm hefur orðið ákveðið bakslag í baráttu hinsegin fólks, Sólborg segir að því sé mikilvægt fyrir okkur að fræðast og bera virðingu fyrir fjölbreytileika fólks.
„Megininntakið í bókinni er að fólk skaðar þig ekki með því að vera það sjálft. Ég held að um leið og við förum að leyfa fólki að vera það sjálft, svo lengi sem það er ekki að skaða aðra, gangi hlutirnir miklu betur fyrir sig, okkur líður öllum betur og búum í miklu betri heimi. Það er eitthvað sem við ættum að einblína á, að leyfa fólki að vera það sjálft. Við erum bara að tala um ást og fjölbreytileika og hann er ekki eitthvað sem við ættum að hræðast.“