Fiskar og furðuskepnur
– Sýning á afrakstri lestrarátaks í Holtaskóla
Sýning á afrakstri lestrarátaksins „Fiskar og furðuskepnur“ í Holtaskóla dagana 12. - 16. maí sem hluti af viðburðum á Barnahátíð.
Grunnskólar í Reykjanesbæ nota ýmsar aðferðir til þess að hvetja nemendur til lesturs. Ein þeirra er að hafa lestrarátak eða lestrarsprett. Þá er ákveðið tímabil valið og nemendur lesa eins mikið og þeir geta á því tímabili. Í Holtaskóla fór slíkt átak af stað 24. febrúar og stóð yfir í 2 vikur, til 9. mars. Til þess að gera lesturinn hvetjandi og sýna afrakstur lesturs nemenda þá bjuggu allir bekkir skólans, 20 talsins, til fiskabúr. Fyrir ákveðinn fjölda lesinna mínútna fengu nemendur fiska til þess að setja í fiskabúrin. Í upphafi var nemendum gert grein fyrir því að þeir gætu keppt um þrennt: Lestrarsæhestur bekksins (hver las flestar mínútur); lestrarbekkur yngsta, mið og efsta stigs (sá bekkur sem las flestar mínútur á hverju stigi fyrir sig valinn) og verðlaun fyrir fallegasta fiskabúrið á hverju stigi fyrir sig.
Fiskabúr bekkjanna verða til sýnis í Holtaskóla vikuna 12. – 16. maí á gangi nemenda á yngsta stigi. Gengið er inn um inngang 1. og 2. bekkjar af skólalóð. Sýningin er sett upp þannig að gestir geta gengið eftir ganginum, skoðað fiskabúrin og annað tengt lestrarátakinu, ásamt því að heyra hvernig nemendur Holtaskóla svara spurningunni „Hvers vegna er lestur mikilvægur?“ Sýningin er opin frá kl. 8:15 – 15:45. Allir eru velkomnir í heimsókn og bera augum fjölbreytt fiskabúr.
Einnig verður boðið upp á stutta leiksýningu fyrir leikskólabörn í fylgd leikskólakennara. Upplýsingar um leiksýninguna „Nemo segir frá“ hafa þegar verið sendar á alla leikskóla Reykjanesbæjar.