Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Finnst aldrei of langt gengið
Fimmtudagur 22. nóvember 2012 kl. 08:55

Finnst aldrei of langt gengið

 


Ævar Már Ágústsson er 22 ára Njarðvíkingur sem um þessar mundir berst um titilinn Fyndnasti maður Íslands. Ævar sem starfar sem baðvörður í Bláa lóninu er á lausu og býr í foreldrahúsum. Hann ákvað að taka þátt í keppninni eftir að hann sá hana auglýsta á facebook en að eigin sögn hefur hann alltaf verið frekar fyndinn gaur. „Titilinn er líka bara svo grípandi, fyndnasti maður Íslands,“ segir Ævar. Auk Ævars eru fjórir aðrir keppendur sem sækjast eftir titlinum eftirsótta en lokakeppnin fer fram á morgun, föstudag á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þú ert væntanlega fyndni gæinn í þínum vinahóp?
„Ég er ekkert svakalega fyndinn nema ég sé í kringum vinina, þá sleppi ég mér stundum í gríninu. Það er sérstaklega mikið hlegið í hópnum þegar ég og Halli vinur minn dettum í gírinn.“

Hvernig er það að semja svona uppistand, hefurðu einhverja reynslu af því?
„Ég hef einu sinni verið með lítið uppistand í FS og þá tók ég mig bara til og hringdi í Ara Eldjárn og við hittumst og fórum yfir efnið sem ég samdi. Hann hjálpaði mér doldið að læra hvernig ætti að semja efni. Svo fylgist maður líka mikið með þessum erlendu uppistöndurum og lærir af þeim,“ segir Ævar.

Hvernig myndir þú lýsa húmornum þínum?
„Ég er með mjög fjölbreyttan húmor. Finnst eiginlega aldrei vera of langt gengið en þá er fínt að hafa vini sem hægja á manni og segja mér að ég geti ekki notað það efni.“ Ævar talar mikið um eigin reynslu og gerir óspart grín að sjálfum sér á sviði. „Málið er að flestar sögur sem ég segi á sviðinu um sjálfan mig eru sannar sögur, og ég er eiginlega að monta mig af þeim því þær geta verið mjög skrautlegar þessar sögur. En ég ýki þær flestar til að gera þær fyndnari.“

Ævar segist eiga sér nokkrar fyrirmyndir í gríni, en meðal íslenskra grínista sem hann heldur upp á eru Ari Eldjárn og Jón Gnarr. Annars fylgist hann mest með: Louis CK, Jimmy Carr og Jim Jeffries í erlendu deildinni, þeir eru að hans mati beinskeittir og stundum frekar sjúkir, en það kann hann að meta. „Community sjónvarpsþættirnir standa mikið upp úr hvað varðar sjónvarpsefni, þar er mikið um rasisma og skemmtilega karaktera, annars er svo bara flest með Will Ferrell í uppáhaldi líka,“ segir Ævar að lokum en eins og áður segir fer keppnin fram á föstudag og nálgast má miða á midi.is eða á staðnum.