Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtán ára aðdragandi að fyrstu sólóplötu Elízu Newman
Þriðjudagur 14. ágúst 2007 kl. 13:48

Fimmtán ára aðdragandi að fyrstu sólóplötu Elízu Newman

Eftir eitt ævintýralegasta ferðalag íslenskrar tónlistarsögu sem teygir sig aftur um 15 ár - sem primus motor, söngspíra, fiðluleikari og lagahöfundur  hljómsveitanna  Kolrössu Krókríðandi, Bellatrix og Skandinavíu - kemur fyrsta sólóplata Elízu M. Geirsdóttur Newman ,,Empire Fall” út. Útgáfudagur plötunnar, sem gefin er út af Lavaland Records  er 15.ágúst nk.
Empire Fall inniheldur 11 lög sem samin eru og útsett af Elízu, en upptökustjóri er Guðmundur Kristinn Jónsson (Kiddi í Hjálmum). Guðmundur Pétursson spilar á bassa og gítar, Helgi Svavar Helgason og Birgir Baldursson á trommur og Elíza syngur, spilar á fiðlu og píanó.
Á þessari plötu lætur Elíza einfaldleikann ráða ríkjum. Hún hefur skapað sinn eigin heim og stemmingu ólíka öllu öðru. Textarnir fjalla m.a um sjálfstæði, missi, heimþrá og uppgjör, en Elízu hefur verið líkt við söngkonuna Nico í dekkri tónum plötunar auk þess sem áhrifum frá Blondie  og Kate Bush bregður fyrir.
Elíza var aðeins 16 ára gömul þegar hún stofnaði kvennahljómsveitina Kolrössu Krókríðandi ásamt skólasystrum sínum í Keflavík. Kolrassa sigraði Múskitilraunir árið 1992 og gaf út þrjár plötur með Smekkleysu og voru þær stöllur leiðandi afl í íslensku tónlistarlífi á fyrri hluta 10. áratugarins.
 Árið 1998 varð Kolrassa að Bellatrix og haldið var í víking til Bretlandseyja. Bellatrix gaf út tvær breiðskífur og fimm smáskífur og varð afar vinsæl hjá bresku pressunni ásamt því að byggja upp sterkan aðdáendahóp sem leiddi til samnings hjá Fierce Panda, einu virtasta útgáfufyrirtæki Bretlands. Bellatrix spilaði um allan heim og fór m.a. í tónleikaferðalag með Coldplay ásamt því að koma fram sem aðalnúmer á Carling Stage á Reading hátíðinni árið 2000.
Árið 2002 hélt Elíza í framhaldsnám í óperusöng í London og nam hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur í þrjú ár. Undir áhrifum óperunnar stofnaði  hún hljómsveitina Skandinaviu . Skandinavia spilaði þungt rokk með óperu áhrifum sem gaf Elízu tækifæri til að nota alla sína þjálfun sem óperusöngkona á vettvangi rokksins. Skandinavíu var boðinn útgáfusamningur eftir aðeins eina tónleika og gáfu þau út eina breiðskífu og tvær smáskífur árin 2003 – 2005 og nutu m.a. mikillar hylli gagnrýnenda.
Elíza er nú  aftur komin á heimaslóðir og  sl. vetur nam hún kennslufræði tónlistar við LHÍ  ásamt því að taka upp nýju plötuna. Hún hefur stofnað nýtt útgáfumerki sem nefnist Lavaland Records og gefur fyrirtækið Empire Fall út á Íslandi í samvinnu við Smekkleysu sm .
  Einnig hefur Lavaland gert útgáfusamning í Bretlandi við Imprint Records og Cargo sem er stærsta sjálfstæða dreifingarfyrirtæki Bretlands. Í Bandaríkjunum hefur verið samið við State 51 sem er leiðandi í stafrænni útgáfu og með saminga við iTunes og allar helstu netverslanir heims. Empire Fall kemur úr erlendis 1. október 2007.
Ævintýri Elízu er langt frá því að enda og stefnir hún á tónleikahald á næstu misserum, bæði hér heima og erlendis , þar sem nýja platan, Empire Fall, verður kynnt .

www.myspace.com/elizanewman
www.myspace.com/lavalandrecords



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024