Fimmta Aftan festivalið heppnaðist vel
Fimmta Aftan festivalið fór fram á Mamma Mía í Sandgerði síðasta fimmtudag. Á dagskrá voru þrjú tónlistaratriði og brotið var blað í sögu Aftan festivalanna.
Fyrstir voru gítarleikararnir Guðmundur Hallvarðsson og Vilhjálmur Skúlason og fluttu þeir nokkur gítarverk með glæsibrag. Þeir eru fyrstu klassísku tónlistarmennirnir sem koma fram á Aftan festivali.
Önnur í röðinni var Sigurbjörg Hjálmars sem söng nokkur lög með aðstoð Halla Valla. Sigurbjörg hefur sjaldan verið betri, geislaði af öryggi og ánægju á sviðinu.
Síðastur á sviðið var Ingi Þór, nýkominn heim úr hljóðversnámi í Manchester á Englandi. Fyrsta lagið hans var “Ingimar”, sem er að finna á plötunni Aftan festival 1, og voru áhorfendur strax vel með á nótunum. Ingi Þór var góður lokahnykkur á skemmtilegu kvöldi.
VF-myndir/ ÓÞÓ: Efri mynd: Ingi Þór, neðri mynd: Sigurbjörg og Halli Valli