Fimm snjöll: Þarf að uppfæra Liverpool appið
Haraldur Axel mælir með fimm öppum
Haraldur Axel Einarsson, nýráðinn skólastjóri Heiðarskóla, hefur verið duglegur að nota ýmis smáforrit (öpp) við kennslu. Hann er einn af frumkvöðlum þegar kemur að kennslu á spjaldtölvur hérlendis og því hefur hann notast við ýmis öpp í gegnum tíðina. Við fengum Harald til þess að deila með okkur nokkrum góðum öppum sem nýtast bæði í leik og starfi.
Noteshelf
Ég nota appið mikið í vinnunni til að skrá og skipuleggja og einnig nýtist það í mastersnáminu í að skrá glósur og „highlighta“ mikilvægu þættina úr glærum sem fylgja fyrirlestrum kennarana. Gott að hlaða inn alls kyns skjölum til þess að vinna með. Hægt að búa til glósubækur til þess að skrifa í. Býður uppá möguleikann að nota ApplePencil í appinu sem nýtist virkilega vel.
Pages
Nota appið í vinnunni til þess að útbúa upplýsingarit sem ég sendi starfsmönnum skólans í hverri viku. Einnig nýtist það í að búa til ýmis skjöl og auglýsingar fyrir skólann. Einfalt í notkun og býður upp á skemmtilegar og flottar uppsetningar á blaðsíðum.
FotMob
Heldur utan um úrslit og stöðuna í öllum knattspyrnudeildum sem ég fylgist með. Bráðnauðsynlegt app. Eini gallinn við það hingað til er hvað Liverpool eru alltaf neðarlega í þessu appi, vonandi uppfæra þeir appið sem fyrst.
Grafio 3
Nota appið í að setja upp skýringarmyndir og hugtakakort. Vinna við skipulagningu næsta skólaárs fer meðal annars fram í þessu appi. Frábært til að setja upp verkferla og flæðirit.
Snapchat
Nota appið mest megnis til að senda foreldrum og tengdaforeldrum myndir af barnabörnunum. Að sjálfsögðu fá Snapchat vinir mínir myndir af því sem ég er að borða og nokkrar myndir af mér prófa filterana. Mystory hjá soliholm kemur mér í gegnum erfiðustu dagana.