Ferskleiki og reynsla á Aftan festival á morgun
- fimmtudaginn 27. nóvember 2008.
Aftan festival fer fram á Mamma mía í Sandgerði fimmtudaginn 27. nóvember 2008. Fram koma Hlynur Þór Valsson, Little Miss & Her og Hermann Ingi & Elísabet. Tónleikarnir hefjast kl. 21:45, það er 18 ára aldurstakmark og frítt inn.
Hlynur Þór Valsson hefur vakið athygli síðustu misserin sem einhver besti söngvari Suðurnesja. Hann er annar helmingur Hobbitanna, sem er ákaflega vinsæll trúbadoradúett á svæðinu. Eins hefur hann sungið með Klassart og er lunkinn munnhörpuleikari. Á fimmtudaginn kemur Hlynur Þór einn fram og flytur eigin lög ásamt vel völdu uppáhaldsefni.
Little Miss & Her er ný hljómsveit, en hana skipa þrjár ungar og efnilegar tónlistarkonur af Suðurnesjum. Tónleikarnir á fimmtudaginn er einungis annað skiptið sem þær koma fram sem Little Miss & Her.
Hermann Ingi er gamalreyndur kappi í íslensku tónlistarlífi, en hann kemur fram ásamt konu sinni Elísabetu á Mamma mía á fimmtudaginn. Þau hafa stundum komið fram saman undir nafninu Lubbi, Lísa og Hárvillingarnir. Vestmannaeyingurinn Hermann Ingi er þekktastur fyrir að vera í hljómsveitunum Logum og Pöpum sem eru báðar meðal vinsælli hljómsveita Íslands fyrr og síðar. Hann er enn í fullu fjöri við tónlistarsköpun sína og ásamt Elísbetu mun hann m.a. flytja nýtt frumsamið efni á fimmtudaginn.
Aftan festival er vettvangur tónlistarmanna í Sandgerði og nágrannasveitarfélögum til að koma list sinni á framfæri. Eins og oftast áður fara tónleikarnir nú fram á Mamma mía víð Tjarnargötu í Sandgerði. Líkt og alltaf er frítt inn á Aftan festival.