Ferskir vindar í Garði tilnefndir til Eyrarrósarinnar
Listahátíðin Ferskir vindar í garði hafa verið tilnefndir til Eyrarrósarinnar en það er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár hvaðanæva af landinu.
Á Eyrarrósarlistanum 2018 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.
Tilnefningar til Eyrarrósarinnar í ár:
Aldrei fór ég suður, Ísafirði.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Northern Wave), Snæfellsbæ.
Ferskir vindar – alþjóðleg listahátíð í Garði.
LungA skólinn, Seyðisfirði.
Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi.
Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði.
Umsögn um listahátíðina Ferskir vindar:
Listahátíðin Ferskir vindar er alþjóðleg hátíð sem haldin hefur verið í Garði annað hvert ár frá árinu 2010. Þangað er boðið hverju sinni 40-50 listamönnum úr öllum listgreinum og af fjölmörgum þjóðernum. Erlendir listamenn dvelja og vinna í Garði í um fimm vikur og sýna þar afrakstur sinn. Aðstandendur Ferskra vinda leitast við að koma á sem nánustum tengslum við íbúa bæjarfélagsins meðal annars með samstarfi við skólana með ýmsum uppákomum og beinni þátttöku nemenda. Öll dagskrá hátíðarinnar er ókeypis og opin almenningi, s.s. kynningar á listafólkinu og verkum þeirra, opnar vinnustofur, myndlistarsýningar, gjörningar, tónleikar o.fl.
Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 1. mars næstkomandi í Neskaupsstað, heimabæ þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.