Ferskir tónar á Aftan festivali á miðvikudaginn
Aftan festival verður á Mamma mía í Sandgerði miðvikdaginn 22. ágúst 2012 og hefst kl. 22:00. Í þetta sinn er það hluti af bæjarhátíðinni Sandgerðisdögum. Fram koma:
Dismiss of The Devine
Orfía
The Imminent G
1860
Dismiss of The Devine er hljómsveit skipuð ungum drengjum úr Sandgerði sem eru að stíga sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni.
Orfía er samstarfsverkefni Soffíu Bjargar og Arnar Eldjárn. Þau Soffia og Örn eru hvað þekktust fyrir að vera hluti af hinni góðukunnu sveit Brother Grass. Þau fiska þó á öðrum miðum sem Orfía og flytja að mestu sitt eigið efni.
The Imminent G er nýtt nafn í tónlistarflórunni á Suðurnesjum. Meðlimir hljómsveitarinnar eru þó engir nýgræðingar og má nefna Koju og Danmodan sem dæmi um hljómsveitir sem þeir hafa átt hlut í. Það verður spennandi að heyra hvernig þetta nýja band hljómar.
1860 þarf vart að kynna. Þessi skemmtilega hljómsveit kemur fram í annað sinn á Aftan festivali enda á hljómsveitin ættir sínar að rekja að hluta til Sandgerðis. Drengirnir fjölhæfu eru búnir að vera á tónleikaferðalagi síðustu daga og mæta því í fantaformi á Mamma mía á miðvikudagskvöldið.
Aftan festival er vettvangur grasrótarinnar í tónlistarsköpun á Suðurnesjum með sína heimahöfn í Sandgerði. Hópurinn hefur staðið fyrir mörgum viðburðum á síðustu árum þar sem fjölmargt tónlistarfólk hefur fengið tækifæri til að koma fram og er nýjasta framtakið útgáfa safnplötunnar Aftan festival 2.
Frítt er inn á Aftan festival og það er 18 ára aldurstakmark. Aftan festival er styrkt af Menningaráði Suðurnesja.