Fermingar hafa lítið breyst í gegnum tíðina
– segir séra Baldur Rafn Sigurðsson, sóknarprestur í Njarðvíkursókn.
„Fermingarnar gengu virkilega vel. Frábært veður og börnin spennt,“ segir séra Baldur Rafn Sigurðsson, sóknarprestur, en fermingar Njarðvíkursókn hófust um þarsíðustu helgi í Njarðvíkurkirkju í Innri-Njarðvík.
„Það fermdust tólf og tólf en við komum ekki fleirum fyrir í hverri fermingu í kirkjunni í Innri-Njarðvík.“
Eftir að Njarðvíkursóknirnar sameinuðust í eina á síðasta ári er Njarðvíkurkirkja sóknarkirkja í Njarðvíkursókn en Kirkjuvogskirkja og Ytri-Njarðvíkurkirkja svokallaðar annexíur, eða útkirkjur.
Hefur þessi sameining sóknanna einhver áhrif á fermingar í Njarðvíkursókn?
„Nei, nei. Hjá okkur fá þau að velja um daga og kirkjur, bara með þessu fororði að við getum ekki fermt fleiri en tólf í einu í Njarðvíkurkirkju og þurfum að takmarka fjölda gesta.
Í Ytri-Njarðvíkurkirkju hef ég fermt mest 26 eða 27 börn í einu. Það er svo allt annað rými þar.“
Fermingar
Séra Baldur segir að spenningurinn sé mikill fyrir fermingardeginum og það hafi ekkert breyst.
„Þau gleyma jafnvel að fá sér að borða, það er svo mikill spenningur. Svo eitt af því sem við höfum alltaf þurft að passa í Innri-Njarðvík, stelpugreyin sem eru búin að hafa fyrir því að fara í hárgreiðslu fyrir athöfnina og svo fýkur þetta allt út í loftið. Þannig að við þurfum að ítreka sérstaklega fyrir foreldrum stúlknanna að vera með eitthvað fínt yfir hárið – en því var ekki að skipta á sunnudaginn, það var alveg blankalogn og sól. Þetta var eitt af fáum skiptum sem það hefur verið þannig,“ segir séra Baldur en fermingar hefjast alltaf fyrst í Njarðvík á Suðurnesjum. „Þetta er gert út af salarveseni. Við höfum byrjað, svo hefur Keflavík komið á eftir okkur og síðan Sandgerði og Garður þar í humáttinni á eftir. Þá hefur fólk mikið meira val um að geta fundið sér sali fyrir veisluna, sumir hafa veisluna jafnvel á laugardegi – degi fyrir athöfnina til að geta boðið öllum. Það er allur gangur á þessu.“
Hvenær er þá fermingum lokið í Njarðvíkursókn?
„Við endum alltaf á skírdag, þetta eru sjö fermingar hjá okkur og endum á skírdag.“
Finnst þér fermingarnar hafa breyst í tímanna rás?
„Nei, þetta er voðalega svipað. Unglingar eru alltaf unglingar eins og ég segi, ég er nú búinn að vera í þessu í fjörutíu ár og það er alltaf sami spenningurinn en það hefur orðið gríðarleg breyting með þessu snjalltækjadóti öllu og við þurfum jafnvel að taka símann af þeim áður en það er labbað af stað. Síminn er alveg fastur við þau og sjálfsagt okkur fullorðna fólkið líka. Við erum ekkert skárri.“
Séra Baldur Rafn er að hefja þrítugasta og þriðja árið sitt hér í Njarðvík en hann er búinn að vera hér frá 1992. „Ég var á Ströndunum áður en ég kom hingað og þar áður í stutta stund í Húnavatnssýslu, ég er Húnvetningur að hluta, fór aðeins heim. Konan mín er reyndar héðan, hún er Grindvíkingur og Keflvíkingur en átti heima í Njarðvík sem unglingur.“