Fer alltaf á jólatónleika
Jólin mín: María Magdalena Birgisdóttir Olsen
María Magdalena Birgisdóttir Olsen jógakennari er vanaföst á aðventunni og byrjar aldrei að skreyta fyrr en eftir 10. desember. Hún borðar alltaf lambakótilettur á aðfangadagskvöld og lætur þær malla frá hádegi. Faðir hennar hefur borðað lambakótilettur á aðfangadagskvöld síðan hann var barn og heldur María hefðinni við.
Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Love Actually er alltaf jafn falleg og ómissandi sem jólamyndin ár eftir ár.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Facebook hefur tekið voða mikið yfir en síðan sendi ég nokkur kort til fólks sem er ekki á Facebook.
Ertu vanaföst um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Já ég er mjög vanaföst á aðventunni, til dæmis hringi ég í vini og ættingja sem búa erlendis eða ekki nálægt mér og óska þeim gleðilegra jóla. Ég fer alltaf á jólatónleika og byrja að skreyta um 10. desember en ekki fyrr. Ég les bók eða bækur sem ég fæ í jólagjöf. Yfir jólin fæ ég vini í kaffisopa og spjall. Á aðfangadag kenni ég Jóga eða Foam Flex í Sporthúsinu.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Á aðfangadag byrjum við að hlusta á klukkurnar hringja inn jólin í útvarpinu og óskum hvort öðru gleðilegra jóla með kossum og faðmlögum. Við byrjum á því að borða kaldan grjónagraut með safti og einni möndlu í og sá sem fær möndluna fær gjöf en það má ekki gefa upp hver fékk hana fyrr en allir eru búnir að borða grautinn. Síðan eru alltaf lambakótilettur í raspi sem eru látnar malla frá klukkan 13:00. Þessi matur hefur verið í jólamatinn frá því að faðir minn var barn og held ég í hefðina. Meðlæti eru brúnaðar kartöflur, grænar baunir, rauðbeður og salat ásamt ýmsu öðru. Í eftirrétt eru svo kokteilávextir, ís og rjómi. Svo hlustum við á messu og byrjum að borða klukkan 18:00. Dætur mínar borða ekki kjöt og meðan þær bjuggu heima þá var hnetuhleifur með sveppasósu ásamt ýmsu öðru góðgæti eldaður fyrir þær. Ég hugsa að ég borði það einnig þessi jól þar sem ég er boðin í mat til yngri dóttur minnar og fjölskyldu á aðfangadag en tek kótiletturnar með fyrir pabba og mig.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Á aðfangadag kl. 18:00.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Gjöfin sem móðir mín gaf mér síðustu jólin hennar hjá mér og jólin þar á eftir þegar pabbi gaf mér hálsmen sem er eins og tár með demöntum í með þeim orðum að öll mín tár sem ég hef grátið um ævina væru í þessu hálsmeni.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Það er kirkja sem Olav Olsen afi smíðaði og hefur fylgt mér öll mín ár og einnig gamlir pappa jólasveinar sem einnig eru frá afa Olsen.
Hvernig verð þú jóladegi?
Á jóladag fæ ég alla fjölskylduna mína til mín. Dóttur mína ásamt hennar fjölskyldu, bræður, systkinabörn og þeirra börn í mat. Fullt hús af fólki sem er mér svo kært og ég elska mest í heimi. Það er mikið hlegið og haft gaman þegar við öll hittumst og tók ég við hefðinni að hafa jólaboðið eftir að mamma kvaddi okkur.