Fengu íslenska fánann að gjöf
Börn í 2. bekk Njarðvíkurskóla fengu íslenska fánann að gjöf frá skátahreyfingunni á Íslandi. Frá 1998 hefur Bandalag íslenskra skáta gefið öllum börnum í 2. bekk í grunnskólum landsins fallega fánaveifu ásamt fánabæklingi sem fræðir börnin og fjölskyldur þeirra um sögu fánans og fánareglur.
Skátar á Íslandi hafa ávallt staðið vörð um íslenska fánann. Á 50 ára lýðveldisafmæli Íslands 1994 fór skátahreyfingin af stað með fánaverkefni undir heitinu „Íslenska fánann í öndvegi“. Á því ári gaf skátahreyfingin öllum grunnskólabörnum íslenska fánaveifu, íslenska fánann á lítilli handstöng til notkunar við sem flest tækifæri. Megin tilgangur verkefnisins var að upplýsa almenning um sögu íslenska fánans, meðferð hans og síðast en ekki síst að hvetja til almennar notkunar fánans með slagorðinu „flöggum á fögrum degi“. Frá þessu er greint á vef Njarðvíkurskóla.
Myndin: Nemendur í 2. bekk Njarðvíkurskóla með íslenska fánann.