Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Félagsmiðstöðin Fjörheimar opnar á nýjum stað á Vallarheiði
Föstudagur 4. apríl 2008 kl. 10:10

Félagsmiðstöðin Fjörheimar opnar á nýjum stað á Vallarheiði

Félagsmiðstöðin Fjörheimar sem fagnar 25 ára afmæli á árinu flytur á nýjan stað á Vallarheiði, Víkingabraut 794,  föstudaginn 4. apríl og er fulltrúa þíns fjölmiðils boðið að vera viðstaddur formlega afhendingu húsnæðisins kl. 19:30.
 
Af því tilefni verður boðið upp á risaball kl. 20:00 fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem fram koma m.a. Atli skemmtanalögga og Erpur úr XXX Rottweiler. Grillaðar verða pylsur og boðið upp á ýmis skemmtiatriði.
 
Fjörheimar voru stofnaðir í nóvember 1983. Vegna framkvæmda við Hljómahöll og félagsheimilið Stapa, þar sem félagsmiðstðin hefur haft aðstöðu frá upphafi þurfti að finna henni nýjan stað. Fundað var með fulltrúum ungmenna og í framhaldi var ákveðið að skoða húsnæði á Vallarheiði, fyrrum Varnarliðssvæðinu. Tókust samningar um leigu á húsnæði sem áður gekkst undir heitinu “Windbraker” og þjónaði sem félagsmiðstöð fyrir einhleypa hermenn. Þess má geta að félagsaðstaðan er einungis 5 ára gömul og því í góðu standi. Einnig hafa verið gerðir samningar við SBK um reglulegar strætóferðir frá og með 7. apríl sem eru sniðnar að þörfum og opnunartíma Fjörheima. Auð auki munu starfsmenn Fjörheima hafa til umráða tvo bíla til þess að bregðast við þegar þess gerist þörf. Boðið verður upp á viðbótarferðir frá öllum grunnskólum þegar um stærri viðburði er að ræða.

Aðstaðan í nýju húsnæði Fjörheima er ein sú glæsilegasta á landinu og er hún alls 1.070 fermetrar. Til samanburðar má nefna að eldra húsnæði Fjörheima var um 200 fermetrar. Í húsnæðinu eru tveir salir, tónlistarherbergi og lítill kvikmyndasalur. Í öðrum salnum er ýmis afþreying s.s. tölvur, billiardborð og spil en í hinum er aðstaða fyrir böll og hljómsveitir en 10. apríl mun hljómsveitin Á móti sól leika fyrir nemendur á árshátíð grunnskóla Reykjanesbæjar.         

Ungmenni í Fjörheimum hafa tekið virkan þátt í undirbúningi félagsmiðstöðvarinnar og m.a. lagt hönd á plóginn við skreytingar. Þar ber helst að telja listamanninn Þorbjörn Einar Guðmundsson.
 
Aö sögn Hafþórs B. Birgissonar tómstundafulltrúa og forstöðumanns Fjörheima er þegar mikill áhugi á nýju félagsmiðstöðinni og má þar nefna samstarf við tómstundaleiðbeinendur í grunnskólum en hver grunnskóli hefur aðstöðuna til afnota einn dag í viku. Nú þegar hefur t.a.m. tómstundaleiðbeinandi Njarðvíkurskóla óskað eftir afnotum af kvikmyndasalnum fyrir Indianda Jones þemakvöld. Þá er einnig boðið upp á hljómsveitaherbergi fyrir nemendur í hljómsveitavali. Æfingar eru þegar hafnar.

Bjarki Brynjólfsson formaður Fjörheimaráðs segir ungmenni vera mjög ánægð með nýju félagsaðstöðuna. “Aðstaðan er alveg frábær og krakkarnir eru allir mjög ánægðir með þetta. Við erum komin í þrisvar sinnum stærra húsnæði með bíósal og sjoppu og svo hefur verið bætt við billiardaborðin og tölvurnar.” Bjarki sagði ennfremur að Fjörheimaráð hafi fengið að vera með í ráðum við ákvarðanatöku vegna framtíðar Fjörheima og því gætu þau ekki annað en verið ánægð með útkomuna.
 
Bæjarstjóri, Árni Sigfússon, mun afhenda ungmennum húsið til notkunar. Í stað venjulegs lykils mun hann afhenda minnislykil sem hefur að geyma myndir frá starfi Fjörheima.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024