Fékk ekki dómarahlutverk í pönnukökubakstrinum en vonast eftir að fá að smakka
Landsmót UMFÍ hefst á morgun, fimmtudag og verður keppt linnulaust nánast til klukkan tvö á sunnudaginn þegar mótinu verður slitið. Ýmislegt annað er í boði, t.d. þrennir heimatónleikar á föstudagskvöldið. Mikill hugur er í Vogafólki og tóku Víkurfréttir púlsinn á nokkrum í aðdraganda mótsins.
Guðmundur Stefán Gunnarsson er frístunda- og tómstundafulltrúi Sveitarfélagsins Voga en hann er annálaður glímukappi.
„Því miður stendur engin glíma til boða á Landsmóti UMFÍ 50+ að þessu sinni og því mun ég líklega sjá um dómgæslu eða aðstoða í einhverjum greinum. Ég var að vísu ekki valinn í draumahlutverkið sem er dómari í Pönnukökubakstri, en ég fá vonandi að smakka. Kasínumótið er spennandi grein en er líklega of erfið fyrir mig því það þarf einbeitingu og þolinmæði til að ná árangri í greininni, ég hef hvorugt og tek ekki þátt nema eiga möguleika á sigri.
Ég mun klárlega fára á heimatónleika ef það er kaffi á könnunni, pláss og fólk vill fá mig í heimsókn.
Ég sé um að halda utan um sérgreinastjórana sem svo sjá um utanumhald og framkvæmd hverrar greinar. Vegna elju allra sem að koma þá er allt að verða klárt. Eina sem stendur útaf er sundlaugin, hún var tekin í gegn fyrir mótið og mun hún verða klár og líklega aldrei verið flottari,“ sagði Guðmundur.