Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fatahönnunin rataði í áramótaskaupið
Laugardagur 26. nóvember 2022 kl. 08:28

Fatahönnunin rataði í áramótaskaupið

„Ég hef alltaf haft áhuga á hönnun, í raun öllu sem er skapandi,“ segir flugfreyjan og stílistinn Margrét Birna Valdimarsdóttir.

Margrét Birna Valdimarsdóttir eða Gréta eins og hún er oft kölluð, er fædd og uppalinn Njarðvíkingur, dóttir Ásdísar Ingadóttur og Valdimars Valssonar. Hún kynntist ástinni í Grindavík og flutti hinum megin við Þorbjörn en sá heppni var og er körfuknattleiksmaðurinn fyrrverandi, Páll Axel Vilbergsson. Gréta hefur alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum, hreyfingu og hollum lífsstíl og prófaði sig áfram í flestum íþróttum, auk þess sem hún lærði einkaþjálfun í Keili. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og alls skyns sköpun, á orðið fjögur börn, flýgur um loftin blá sem flugfreyja og sér framtíðina björtum augum.

Gréta er uppalin í Njarðvík en var þó fyrstu þrjú skólaárin í Keflavík. „Ég byrjaði fljótlega að æfa íþróttir, fann fljótt að skapandi greinar hentuðu mér best, t.d. jazzballet og fimleikar. Ég hef alltaf sóst mikið í það sem er skapandi, þess vegna kom kannski ekki á óvart að ég skyldi ung fá áhuga á alls kyns hönnun og þegar ég var í áttunda bekk þá vann ég fyrstu fatahönnunarkeppni Grunnskólanna, keppni sem haldin var á vegum Newmans own en í dag heitir keppnin Stíll. Ég saumaði kjól úr sæng, setti smellur neðst og gat bæði notað afraksturinn sem kjól og svefnpoka ef út í það var farið. Þetta þótti athyglisvert og jafnvel fyndið, varð að smá atriði í áramótaskaupinu! Þegar ég var ung föndraði ég kort, teiknaði og málaði myndir og seldi í Blómabúð Guðrúnar á Hafnargötunni og vann mér þannig inn vasapening,“ sagði Gréta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2008 urðu straumhvörf í lífi Grétu: „Ég kynntist Palla sumarið 2008 en þá var Gísli sonur minn tíu mánaða gamall. Palli átti íbúð og ég flutti inn með honum um jólin og við höfum ekki litið til baka síðan. Árið 2012 varð Palli Íslandsmeistari með Grindavík en bauðst að spila með Skallagrími næsta tímabil og við ákváðum að flytja í Borgarnes en Palli hafði spilað með Skallagrími hluta úr tímabili, árið 1998. Við áttum þrjú frábær ár í Borgarnesi, eignuðumst Ásdísi Völu þar í desember 2012 og Páll Valdimar árið 2014 en svo fluttum við aftur til Grindavíkur vorið 2015 og höfum komið okkur vel fyrir hér. Valur Ingi bættist svo í barnahópinn á COVID-árinu 2020, við erum mjög ánægð með stöðuna eins og hún er en ég er ekki nema 37 ára gömul svo maður skyldi aldrei segja aldrei.“

Dúxaði í stílistanámi og flýgur um loftin blá

Eins og áður hefur komið fram þá hefur Gréta alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og sköpun, því lá kannski beinast við að skella sér í stílistanám: „Ég fór í stílistanám og útskrifaðist árið 2007 úr United colors of academic styles, dúxaði en ári áður hafði ég farið í förðunarnám. „Ég hef tekið að mér nokkur erlend stíllistaverkefni, stærsta verkefnið var fyrir kana-dískt skófyrirtæki en það fór fram uppi á jökli og var bæði krefjandi og skemmtilegt við ekta íslenskar aðstæður.“ 

Gréta nýtir menntunina líka heima við: „Við Palli keyptum þetta hús sem var byggt árið 1974 og var kannski eins og hús voru þá, meira hólfað niður og garðurinn var í órækt svo það var gaman að nýta hönnunar- og stíllistareynsluna en ég hannaði allar breytingar og þar sem Palli er laghentur þá gátum við gert þetta ein og óstudd. Það er einhvern veginn alltaf kveikt á stílistanum í mér, ég kem varla inn á heimili án þess að ég sé farin að spá og spekúlera hvernig hægt yrði að breyta og eins hef ég gaman af því að ráðleggja fólki varðandi klæðaburð. Ég hef líka mjög gaman af því að aðstoða Ásdísi Völu við að gera grímubúning fyrir öskudaginn eða hrekkjavöku, hún er mjög hugmyndarík og ég hef gaman af því að taka áskorunum frá henni.“

Flugfreyjustarfið heillaði

„Ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast, skoða heiminn, hitta nýtt fólk og kynnast nýrri menningu og þess vegna var kannski eðilegt að ég skyldi velja mér flugfreyjustarfið en ég hóf störf sem flugfreyja árið 2018. Þar áður hafði ég unnið hjá Icelandair með hléum frá 2004, við hreinsun, veitingadeild, innritun og á Saga biðstofunni. Auðvitað getur verið flókið að púsla vinnunni, áhugamálum og fjölskyldulífi saman en ég er mjög skipulögð, veit mánuð fram í tímann hvernig ég er að fljúga og skipulegg nánast hverja mínútu, ef maður er með góðan mann á bak við sig þá ganga hlutirnir upp,“ segir Gréta.

Félagsmál og pólitík

Gréta hefur alltaf látið sig félagsmál varða og er sömuleiðis farin að hasla sér völl í pólitíkinni í Grindavík: „Ég hef alltaf verið frekar félagslynd og viljað taka þátt í félagsstarfi. Var í nemenda- og íþróttaráði í grunnskóla og við áttum t.d. hugmyndina að skólahreysti. Ég var í nemendaráði FS og um tíma var ég í leikfélagi Keflavíkur, var bæði að leika og aðstoða á allan hátt. Ákvað svo að hætta því þegar Gísli fæddist og sinna móðurhlutverkinu sem best. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor bauð ég mig fram fyrir hönd Raddar unga fólksins og sit sem varamaður í öldungaráði Grindavíkur. Ég er varaformaður foreldrafélags leikskólans Króks. Svona vil ég vinna og taka þátt í að gera bæinn minn betri, aðstoða bæði fullorðna og börn. Þó svo að mikið sé að gera hjá mér þá set ég samt börnin mín og maka ávallt í fyrsta sæti, ég elska að ferðast og skapa minningar með þeim,“ sagði Gréta að lokum.

Margrét Birna Valdimarsdóttir // myndir með viðtali