Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fannst glatað að fullorðna fólkið þurfti endilega að fá sér kaffi
Katrín með ömmustráknum Loga Davíðssyni í eldhúsinu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 5. desember 2020 kl. 06:06

Fannst glatað að fullorðna fólkið þurfti endilega að fá sér kaffi

Katrín Sigurðardóttir lumar á skemmtilegum jólaminningum frá æsku

Katrín Sigurðardóttir, kennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, man vel eftir einum jólum þegar hún var barn og allt gekk á afturfótunum. Þá kviknaði m.a. í nýju náttfötunum hennar. Jólin eru annars í föstum skorðum hjá fjölskyldunni og hamborgarhryggur á jólaborðinu á aðfangadagskvöldi.

– Ertu byrjuð að kaupa jólagjafir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Er lítið byrjuð að kaupa jólagjafir en aðeins samt. Ég hef verslað hér í heimabæ og svo eitthvað að netinu.

Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Jólatréð fór upp síðasta laugardag mun fyrr en áður en nú er um að gera að nota jólin til þess að gera eitthvað skemmtilegt í þessu covid-standi, fjölskyldan mætti í jólaundirbúninginn og það var endað á góðum kvöldverði.“

– Skreytir þú heimilið mikið?

„Skreyti ekki mjög mikið en hef samt mjög gaman af því að ná í jóladótið sem maður er búin að eiga í mörg ár, eins og jólatréð, fer þetta upp snemma en ég vil njóta aðventunnar.  Aftur á móti finnst mér gott að taka allt niður strax eftir áramótin en þá finnst mér jólastemmingin búin.“

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

„Ég baka alltaf eitthvað, mismikið á milli ára. Vinsælast er að baka skinkuhorn og baka ég þau stundum tvisvar í desembermánuði en þau hverfa jafnóðum. Nauðsynlegt er að baka brúna randalínu en maðurinn minn hefur fengið hana síðan hann var barn og finnst hún ómissandi. Ég er nú reyndar mikið í eldhúsinu um jólin en ég hef gaman af matargerð þó svo  að það sé ekki mikið um nýjungar á jólunum.“

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?

„Desember í Covid verður mest með mínu fólki en við eigum líka eitt barnabarn sem gaman er að fylgjast með á jólunum. Hvað jólaboð o.þ.h. þá komum við til með að fylgja reglum, kannski myndast nýjar hefðir út úr þessu. Venjan er eitt jólaboð hjá minni fjölskyldu og gamlárskvöld hjá tengdafjölskyldunni.“

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

„Jólin eru í föstum skorðum hjá okkur og það má engu breyta en eitt árið vildi ég breyta matseðlinum og sú tillaga féll með öllum atkvæðum en maður breytir ekki jólunum. Við borðum kl. 18:00 og svo er mandlan – og oftast fær yngsta dóttirin möndluna. Við förum alltaf í kirkjugarðana og setjum skreytta grein á leiðin hjá látnum ástvinum.“

– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

„Æskuminningar mínar frá jólunum eru að við borðuðum alltaf hjá ömmu og afa á Suðurgötu 3. Við vorum tvær fjölskyldur sem vorum saman þar á aðfangadagskvöld en það voru mamma og hennar fjölskylda og systir mömmu og hennar fjölskylda en þessar fjölskyldur bjuggu í sama húsi við á neðri hæð og systir mömmu á efri hæð á Smáratúni. Bróðir þeirra var líka þar til hann gifti sig og hann las á pakkana og við krakkarnir vorum ekki hress þegar hann hætti að koma. Það voru svínakótilettur í raspi í matinn og grjónagrautur með þeyttum rjóma í eftirrétt. Afi fékk oftast möndluna en við krakkarnir sögðum að hann borðaði svo mikið af honum. Man að ég var ekki hrifin af matnum en var sama, beið eftir pökkunum eins og hinir krakkarnir og fannst glatað að fullorðna fólkið þurfti endilega að fá sér kaffi.“

–Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Ég fer ekki í messu um jólahátíðina, ólst ekki upp við það og einhvern veginn myndaðist ekki hefð fyrir því, við hlustum alltaf á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin og höfum messuna á undir borðhaldinu. Man þegar ég var barn þá var það sérstök tilfinning þegar kirkjuklukkurnar hringdu og þá varð allt svo hátíðlegt.“

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Ein jólin þegar ég var barn gekk allt á afturfótunum og er það mjög eftirminnilegt, líka það sem það endaði allt vel. Ég byrjaði á að missa jólagjöf á gólfið sem systir mín átti að fá og það heyrðist brothljóð við litla gleði systurinnar. Ég fékk mjög fallega peysu frá ömmu og svo málningardót. Nú auðvitað missti ég rauða málningu yfir alla peysuna og mamma eyddi einhverjum klukkutímum í að ná því úr sem hún gerði. Seinna um kvöldið hallaði ég mér yfir kerti og það kviknaði í náttfötunum mínum og pabbi reif ermina af og bjargaði mér. Allt endaði vel. Aamma náði málningunni úr og gat lagað náttfötin og systir mín vorkenndi mér og tók mig í sátt og leyfði mér að sofa upp í hjá sér. Eftir á, þá var þetta aðfangadagskvöld engin draumur fyrir mömmu.“

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

„Mig langar ekki í mikið í jólagjöf, dettur ekki neitt í hug í augnablikinu en finnst reyndar gaman af matargerðardóti og ég hef gaman af því.“

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

„Á aðfangadagskvöld verður hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi og Toblerone ís eða jarðaberja-frómas í eftirrétt. Við borðum þennan rétt einu sinni á ári.“