Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fannst alltaf vera rafmagnslaust á aðfangadag
Ragnar Sigurðsson.
Mánudagur 28. desember 2015 kl. 07:00

Fannst alltaf vera rafmagnslaust á aðfangadag

Ragnar Sigurðsson er framkvæmdastjóri AwareGO, sem er frumkvöðlafyrirtæki með aðsetur í Eldey frumkvöðlasetrinu á Ásbrú. AwareGO framleiðir öryggisfræðslumyndbönd til að hámarka áhrif öryggisvitundarfræðslu og auka öryggisvitund starfsmanna fyrirtækja.

Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Die Hard og Christmas Vacation klikka aldrei.

Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég hef alltaf verið mjög lélegur í jólakortum svo Facebook var alger himnasending fyrir mig.

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Ég fer í kirkjugarðana og spjalla aðeins við ættingja og vini sem eru farnir.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Þegar ég var átta ára fékk ég tvo fjarstýrða bíla frá sitt hvorum afanum, fæ ennþá sæluhroll þegar ég hugsa um það.

Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum?
Mér fannst alltaf vera rafmagnslaust á aðfangadag.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Líklega djúpsteiktur kalkúnn á ameríska vísu.

Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Klukkan sex á aðfangadag hellast jólin yfir mig.

Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Við bjuggum í Austurríki í þrjú ár og eyddum jólunum þar, það skiptir í raun og veru engu máli hvar maður er ef maður hefur fjölskylduna hjá sér.

Hvernig brástu við þegar þú komst að leyndarmálinu um jólasveininn?
Það var svakalegt áfall sem ég er ekki búinn að vinna úr enn.

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Ég held bara ekki.

Hvernig verð þú jóladegi?
Engin jólaboð eru hjá okkur á jóladegi en við fáum yfirleitt alla fjölskylduna til okkar á náttfötunum í afganga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024