Fann fullkomið jafnvægi á Hawaii
- Brynja skellti sér í jóganám á hvítum ströndum Maui eyju
Brynja Bjarnadóttir lét gamlan draum rætast í sumar þegar hún heimsótti paradísina Hawaii utan ströndum Bandaríkjanna. Þar lagði Brynja stund á jóganám, en sportið hefur hún stundað síðustu fjögur árin. „Mig langaði að tileinka mér betur lífsstílinn og læra meira um jóga. Þetta var nám sem heillaði mig mikið enda var farið um víðan völl.“ Brynja er því komin með kennsluréttindi og er að hefja störf sem jógakennari hjá Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Hún dvaldi í mánuð á einni af eyjunum á Hawaii sem eru fjölmargar. „Þetta er æðislegur staður. Ég dvaldi á eyjunni Maui en þar búa um 150 þúsund manns. Í þeim bæ sem ég bjó voru engir ferðamenn þannig að ég fékk að kynnast heimamönnum og þeirra menningu. Fólk þarna lifir mjög heilbrigðu lífi. Það ræktar sitt eigið grænmeti og ávexti en samfélagið er mjög sjálfbært. Þetta var allt voðalega hipp og kúl en bærinn er kallaður „Hippabærinn“ á Maui,“ segir Brynja.
Hawaii svipar mjög til Íslands
Var fólkið sem var með þér í náminu ekkert hissa á að sjá Íslending þarna að nema jóga? „Jú algjörlega. Flestir vissu ekkert um landið eða hvar það væri. Þeim fannst það merkilegt og spurðu mikið út í landið mitt. Þau eru núna tilbúin að koma hingað og heimsækja mig.“ Brynja segir að það hafi komið henni mjög á óvart hversu mikið Hawaii svipar til Íslands. „Landslagið er svipað með eldfjöll og hraun og það minnti mig mikið á Ísland. Þetta er líka lítið samfélag þar sem fólk stendur mikið saman og allir þekkja alla.“
Brynja ákvað að leggja í þetta ævintýri ein og óstudd en með því vildi hún ögra sjálfri sér í framandi umhverfi, en hún dvaldi í mánuð á eyjunni. Brynja segir að nám hennar í hjúkrun hafi nýst vel í jóganu en hún var meðal annars látin kenna samnemendum sínum á Hawaii. „Það var mjög gaman og lærdómsríkt. Ég var allt í einu farin að skilja þetta rosalega vel,“ segir hún og hlær. „Ég held að ég hafi komið betri til baka frá Hawaii,“ bætir hún við. Jóga er afar vinsælt á eyjunum og segir Brynja að alls staðar sé fólk að stunda íþróttina, sérstaklega á ströndinni.
Féll strax fyrir jóga
Jóga varð fyrir valinu hjá Brynju eftir feril í fótbolta sem einkenndist af talsverðum hnémeiðslum. „Ég var í ræktinni en fann mig ekki alveg. Ég ákvað að prófa jóga og féll fyrir þessu í fyrsta tíma, þá var ekki aftur snúið. Þetta hefur hjálpað mér mikið að sigrast á meiðslum.“ En hvað er jóga? „Það er stór spurning. Þetta er mikið til undir manni sjálfum komið. Þetta snýst ekki bara um teygjur og liðleika. Jóga snýst mikið um andlega þáttinn. Það er verið að vinna með hugann, öndunina og líkamlega hreyfingu á sama tíma. Einbeitingin er mikilvæg og þessi hugsunarháttur, að hugsa jákvætt. Þetta snýst mikið um heimsspeki og sálfræði. Það sem jóga þýðir í rauninni er þessi tenging milli huga og líkama. Það mætti segja að jóga snúist um að fá algjört jafnvægi í líkmann.“
Notar ekki áfengi og nýtir tímann betur
Brynja tók þá ákvörðun fyrir tíu mánuðum síðan að hætta að drekka áfengi. Hún drakk hóflega áður en aðhyllist nú áfengislausum lífstíl. „Ástæðan fyrir því að ég hætti að drekka er sú að ég vil lifa heilbrigðum lífsstíl. Mér fannst ég ekki þurfa áfengið til að skemmta mér eða þurfa þess á einhvern hátt. Ég bjóst ekki við að þessi ákvörðun mín myndi endast neitt frekar, eða pældi kannski ekki svo mikið í því. En núna er þetta orðið lífstíll sem ég hef tileinkað mér og sé alls ekki eftir því.“ Brynja segir marga kosti fylgja því að drekka ekki áfengi. Hún nýtir tíma sinn betur vaknar hress morguninn eftir nótt út á lífinu. „Ég nýti frídagana í lærdóm, vinnu eða tíma með fjölskyldunni, þar sem þynnkan eftir djamm getur tekið á,“ segir Brynja. Hún kíkir alveg með vinkonum sínum út á lífið en vaknar þá hress morguninn eftir. Brynja hugsar líka vel um það sem hún lætur ofan í sig. Hún segist pæla mikið í mat en sé þó ekki grænmetisæta eins og svo margir sem stunda jóga af kappi. „Ég borða rosalega mikið grænmeti en finn alltaf þörf fyrir að borða fisk, kjöt og kjúkling.“
Brynja á eitt ár eftir af háskólanámi í hjúkrun við Háskólann á Akureyri. Hún hefur í nógu að snúast en hún hefur verið að starfa bæði í Bláa Lóninu og í Mac búðinni í Kringlunni í sumar. „Ég er mjög ánægð í þessu námi og það á klárlega vel við mig. Mig langar að hjálpa fólki og hjúkrunarfræði hefur heillað mig lengi. Mér finnst ég hafa þroskast mikið og hafa lært að skynja lífið á annan hátt. Ég á í miklum samskiptum við fólk og ég hef gaman af þannig vinnu. Þetta er krefjandi og mjög gefandi en ég er mjög ánægð að hafa valið þetta starf.“
Brynja mun kenna Vinyasa jóga í Sporthúsinu í vetur. Vinyasa snýst um að halda jafnvægi milli öndunar og hreyfingar líkamans; hver öndun tengist hverri hreyfingu. Samfellt flæði í gegnum stöðurnar einkennir tímann og er öndun mikilvægur þáttur. Í þessum tímum er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og unnið jafnt með alla vöðvahópa með það að markmiði að ná jafnri líkamsstöðu, auka styrk- og liðleika. Vinyasa jóga er fyrir alla, byrjendur sem lengra komna. Þetta er frábær æfing til að stíga sín fyrstu skref í jóga eða halda áfram að bæta sig sem jógaiðkandi.