Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Fallin fyrir hjólreiðamenningunni“
Sunnudagur 20. mars 2011 kl. 12:41

„Fallin fyrir hjólreiðamenningunni“

Um víða veröld: Suðurnesjafólk á erlendri grundu.

Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir er 25 ára Keflvíkingur sem er búsett í Kaupmannahöfn. Hún flutti til Danmerkur fyrir rúmum fimm árum og hóf nám við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Þar lagði hún stund á Viðskipta- og þjónustufræði og útskrifaðist með BA gráðu. Hún er sem stendur í Mastersnámi í markaðsfræði við sama skóla og hyggst ljúka Mastersritgerð sinni nú í lok sumars. Ingibjörg féllst á að deila með okkur reynslu sinni af því að búa erlendis og segja Víkurfréttum aðeins frá daglegu lífi sínu í Danmörku.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að flytja erlendis?

„Aðal ástæðan var námið. Annars langaði mig lika að prófa að búa í stórborg og upplifa aðra menningu. Ég bý núna með vinkonu minni út á eyjunni Amager á litlu kollegi. Íbúðin er roslaega notaleg en í smærri kantinum. Hverfið mitt er ekkert voðalega skemmtilegt, en ég er enga stund að hjóla niður í bæ.“


„Það er frábært að búa í Kaupmannahöfn. Það besta við að búa hérna eru allir möguleikarnir sem borgin hefur uppá að bjóða, það skiptir ekki máli hvaða vikudagur er, það er alltaf eitthvað um að vera. Það allra besta við borgina er hjólamenningin. Þú kemst allt á hjóli og oftast er það auðveldasta leiðin. Það versta við borgina er sennilega hversu dýr Kaupmannahöfn er miðað við aðrar evrópskar stórborgir eins og t.d. London, Berlín og Vín,“ segir Ingibjörg aðspurð um hvað sé það besta við það að búa í Kaupmannahöfn.

Hjólar í öllum veðrum

Íslendingar velta veðrinu mikið fyrir sér, svo ég spyr Ingibjörgu hvernig danska veðrið færi í hana: „Það er misjafnt. Vorin og sumrin geta verið yndisleg. Síðustu vetur hafa ekki verið sem bestir uppá hjólamenninguna að gera. Þetta er ekki eins og á Íslandi að maður hoppi bara upp í bíl og setji miðstöðina á fullt. Hér hjólar maður í frosti og í snjóstormi og lætur sig hafa það enda ekkert annað í boði, nema að taka strætó eða lest sem tekur ennþá lengri tíma en að hjóla.“

Ingibjörg hefur sínar skoðanir á Dönum og matarvenjum þeirra „Danirnir eru fínir en stundum getur verid pirrandi hvað þeir fylgja alltaf reglunum. Þeir eru rosalega skipulagðir sem er auðvitað gott, en stundum getur það verið einum of mikið.“ Ingibjörg segist jafnframt ekki vera mjög hrifin að matseld Dana og sakni íslenska matarins oft, þó segist hún varla geta lifað af án danska rúgbrauðsins í dag.

Aðspurð hvort hún hafi átt í erfiðleikum með að ná tökum á tungumálinu segir Ingibjörg „Já það má nú eiginlega segja það. Danskan er ekki auðveldasta tungumál í heimi þótt við Íslendingar lærum dönsku í mörg ár. En ég hugsa að það hafi tekið mig svona 2-3 ár að ná fullkomnum tökum á henni. Námið mitt hefur svo allt farið fram á ensku þannig ég var því aðeins lengur að ná dönskunni.“

Alltaf eitthvað um að vera um helgar

„Ég elda oft með vinum og svo er kíkt eitthvað út á lífið og jafnvel er farið í late brunch daginn eftir. Ég á mér marga uppáhaldsstaði sem flestir eru við Vesterbro og Nørrebro. Má nefna staði svo sem Malbec, Dyrehaven, PatéPaté, Bang&Jensen og Gefährlich. Svo er alltaf nóg um að vera í Kødbyen t.d. á Jolene Bar og Bakken. Mínir uppáhalds kokteilstaðir eru Rubys, Oak Room og Mexi Bar sem er sennilega með ódýrustu kokteilana í bænum,“ segir Ingibjörg um skemmtanalífið í borginni sinni.


Búðirnar eru jú fleiri í Danmörku heldur en á Íslandi og Ingibjörg taldi upp fyrir okkur þær verslanir sem hún heldur upp á. „Mínar uppáhaldsbúðir í augnablikinu eru Weekday, Monki, Urban Outfitters, Prag og Cos. Svo eru útimarkaðarnir á sumrin æðislegir, sérstaklega sá sem er við Frederiksberg ráðhúsið.“

Einnig fer Ingibjörg mikið út að borða og mælir með nokkrum veitingarstöðum. „Sticks’n’sushi er í algeru uppáhaldi hjá mér. Wokshop kemur svo líka sterkur inn sem og Mother sem er ítalskur veitingastaður í Kødbyen.“

Ingibjörg hefur greinilega smitast af hjólreiðabakteríunni eftir dvölina í Danmörku og eru þær eitt helsta áhugamál hennar.

„Ég myndi segja að hjólreiðar séu í miklu uppáhaldi hjá mér enda ekki annað hægt hérna i Kaupmannahöfn. Annars þykir mér gaman að elda og prófa mig áfram i eldamennskunni, sem er frekar erfitt núna því eldhúsið mitt er ekki mjög stórt. Ég elska líka að ferðast og er næstu ferð heitið til Vínar til að hitta vinina þar.“

En síðasta haust hélt Ingibjörg til Vínar í Austurríki í skiptinám í eina önn og kunni hún vel við sig þar. „Þessi tími var án efa það besta sem ég hef upplifað. Vín er æðisleg borg, fallegar byggingar og hefur uppá mikið að bjóða.“

Gömul og gráhærð í Danmörku

Aðspurð hvers hún sakni nú mest frá Íslandi segir Ingibjörg: „Fjölskyldunnar og vina er auðvitað sárt saknað. Það er mjög erfitt að vera frá litlu systkinabörnunum mínum, en sem betur fer er ég með íslenskan heimasíma og svo auðvitað Skype.
Ég sakna líka fisksins hans pabba mjög mikið. Ekkert jafnast á við nýveiddan fisk í boði pabba og mömmu. Ég sakna þess líka hvað sumt er miklu auðveldara heima. Hér stend ég algjörlega á mínum eigin fótum og þarf að bjarga málunum sjálf. Það er ekkert farið heim til mömmu og pabba og þau redda málunum.“

Ingibjörg sér ekki fram á að hún flytji heim í bráð. „Ég er búin að búa í Kaupmannahöfn í fimm og hálft ár. Ég reikna með að vera hérna þangað til ég er orðin gömul og gráhærð vonandi. En tímarnir geta alltaf breyst þannig að ég er opin fyrir öllu.“ Hún sér sjálfa sig í framtíðinni í draumastarfinu í draumaíbúðinni og enn í Kaupmannahöfn. „Og jú auðvitað fylgir mér vonandi karlmaður og jafnvel lítil kríli með,“ sagði Ingibjörg Ósk svo að lokum.

Myndir/ efri mynd: Ingibjörg skellti sér á skíði í Austurríki er hún var þar í skiptinámi fyrir áramót. Neðri mynd: Ingibjörg fer oft í brunch með vinum sínum í Kaupmannahöfn.


[email protected]