Fær páskalæri hjá mömmu
Bláfjallaferð á snjóbretti og rólegheit líka.
Viktor Örn Andrésson, yfirmatreiðslumaður hjá Bláa lónsins og Íslands- og Norðurlandameistari í matreiðslu, ætlar að hafa það rólegt um páskana. „Ég ætla að njóta þess að fara í matarboð til mömmu og svona. Planið var svo að taka út mótorcrosshjólið og græja það fyrir sumarið, taka jafnvel einn hring á því. En þar sem það hefur snjóað svona vel síðustu daga er enn líklegra að maður muni bara verja páskunum í Bláfjöllum í staðinn.“
Viktor segir ekki standa til að gefa páskaegg í ár, en ef hann finni einhvern sem langar í þá ætlar hann bara að gefa viðkomandi með sér af sínu. „Mig langar mest í Strumpapáskaegg eða alvöruegg frá Hafliða í Mosfellsbakaríi.“ Það sem Viktor segist borða þessa páska er fyrst og fremst páskasteikin hjá mömmu, sem sé lambalæri með öllu tilheyrandi. „Varðandi sumarið þá reynir maður nú að gera sitt lítið af hverju. Ein stutt utanlandsferð er kominn á planið í byrjun maí til Stokkhólms og mögulega bætir maður annarri inn í í heitara loftslag.“ Viktor segir ekkert planað varðandi ferðalög innanlands, en það verði örugglega einhverjir túrar teknir með stuttum fyrirvörum.
„Veturinn hefur verið mjög annasamur. Byrjaði á keppninni um Matreiðslumann ársins í september, fóru nokkrar vikur þar í æfingar sem skiluðu fyrsta sætinu. Svo fór ég í mánaðar-menntunartúr á 3 stjörnu Michelin veitingastað í Chicago eftir jólahlaðborðstraffíkina.“ Viktor hóf svo árið í ár að fara í snjóbrettaferð til Denver til að safna smá orku fyrir æfingaferlið í Norðurlandakeppninni sem var í mars. „Ég vona að sumarið muni nú verða gott. Ég er hættur að reyna að spá í það því það hefur aldrei neitt ræst úr því. Vona bara það besta. Besta sem mér finnst við sumartímann er dagsljósið allan sólahringinn. Það gefur manni svo mikla orku,“ segir Viktor jákvæður.