Fær innblástur frá ömmu
Ýmis tækifæri boðist í gegnum tískubloggið
Alexsandra Bernharð Guðmundsdóttir er 21 árs Keflvíkingur sem heldur úti vinsælu tískubloggi, Shades of Style. Ásamt því að vinna að blogginu sínu starfar hún í Fríhöfninni í sumar en Alexsandra stefnir á nám í markaðsfræði við Háskóla Íslands í haust. Bloggævintýrið hófst fyrir um tveimur árum síðan en bloggið varð virkilega vinsælt þegar Alexsandra flutti til Los Angeles þar sem kærasti hennar stundaði nám. „Mig hafði lengi langað til þess að byrja með blogg og það var pabbi sem hvatti mig til þess að byrja á þessu. Ég fór fljótlega að fjalla um minn eigin stíl, setja inn myndir af mér í hinum ýmsu fatasamsetningum sem mér þótti flottar og þá byrjaði boltinn að rúlla, lesendum fjölgaði og þá fór ég að gera þetta af meiri alvöru.“
Er með einfaldan og fágaðan stíl
Alexsandra segist lýsa stílnum sínum þannig að hann sé mjög einfaldur og fágaður. „Stundum er stíllinn minn jafnvel of einfaldur. Ég reyni alltaf að vera mjög örugg þegar það kemur að fatavali og vil ekki hafa mikið í gangi. Stíllinn er þó alltaf að þróast og breytast.“ Innblástur fær Alexsandra helst frá ömmu sinni en hún segir hana hafa kennt sér mikið um tísku. Annars fylgist hún með fólki úti á götu og bíómyndum til þess að fá frekari innblástur. Aðrir bloggarar hafa einnig áhrif á stíl Alexsöndru en hún heldur mest upp á Angelicu Blick og Sincerely Jules.
Mikil vinna að halda úti bloggsíðu
Á bakvið bloggsíðuna liggur mikil vinna en bjóst Alexsandra alls ekki við því. „Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu mikill tími fer í þetta. Það þarf auðvitað að hanna útlit á síðuna og svo tekur það mikinn tíma að byggja upp lesendahóp. Myndatökurnar eru einnig tímafrekar og krefjast smá þolinmæði, en þetta er alveg þess virði á endanum og mjög skemmtileg vinna.“ Þegar Alexsandra var búsett í Los Angeles sá kærasti hennar um að taka myndir af henni á förnum vegi en í dag er það hlutverk systur hennar sem tekur myndir af Alexsöndru, ýmist í miðbæ Reykjavíkur, í gamla bænum í Keflavík eða í Hörpu þegar illa viðrar.
Ánægð með tækifærin
Ýmis tækifæri hafa boðist Alexsöndru í kjölfar bloggsíðunnar og var henni m.a. boðið að stílisera fyrir nýja förðunarbók sem kemur út í haust. Ásamt því að selja auglýsingapláss á síðunni eru einnig nokkrir styrktaraðilar á bak við síðuna sem senda Alexsöndru föt mánaðarlega sem hún klæðist svo í myndatökum. „Ég er virkilega sátt með þau tækifæri sem mér hafa boðist vegna bloggsins, ég hef fengið að vinna með frábæru fólki og bíð spennt eftir fleiri tækifærum,“ segir Alexsandra að lokum.
Alexsandra pósar í gamla bænum í Keflavík.
Þegar illa viðrar eru myndatökurnar færðar inn og þá oft í Hörpu.