„Fæ gæsahúð þegar ég hugsa um tískupallana“
Birgitta Ósk Pétursdóttir er ung Keflavíkurmær sem hefur nýlega byrjað að starfa sem fyrirsæta. Birgitta skráði sig í keppni á vegum Not Just Fashion Magazine í gegnum heimasíðuna modelmanagement.com þar sem fólk gat kosið á milli átta fyrirsæta. Sigurvegarinn fær titilinn „Fyrirsæta vikunnar” hjá tímaritinu og kemst í úrslit þar sem sjö fyrirsætur vikunnar keppa. Úrslit voru kunngjörð í gær þar sem Birgitta bar sigur af hólmi með yfirburðum.
„Ég skráði mig um daginn á þessa módelsíðu þar sem fyrirsætur, módelskrifstofur og ljósmyndarar eru skráð og þar sá ég auglýsingu um keppnina. Ég ákvað að senda inn myndir af mér en bjóst ekki við að vera valin. En svo gerðist það og nú er ég komin áfram í aðalkeppnina sem verður í maí.”
Birgitta ætlaði sér aldrei að byrja í fyrirsætubransanum þar sem hún hafði ekki trúað að hún gæti sjálf starfað sem fyrirsæta. Hana langaði að skrá sig hjá Elite í auglýsingar en þau hjá Elite bentu henni á að skrá sig í Elite fyrirsætukeppnina sem var verið að halda og var hún svo ein af tólf stelpum sem valin var til að taka þátt í keppninni. Í kjölfarið kviknaði mikill áhugi hjá Birgittu á fyrirsætustörfum.
Birgitta er um þessar mundir að skrifa undir eins árs samning við útlenskt módelfyrirtæki sem gefur henni vonandi tækifæri til að starfa sem fyrirsæta um tíma. „Ég sé mig alveg vel fyrir mér að starfa í módel bransanum í nokkur ár. Ég fæ bara gæsahúð í hvert skipti sem að ég hugsa um tískupallanna,” segir Birgitta aðspurð um nánustu framtíð. Það skemmtilegasta við fyrirsætubransann segir Birgitta að það sé að hún sé alltaf að gera eitthvað nýtt, kynnast frábæru fólki og öðlast góða reynslu.
Birgitta er Keflvíkingur en er nú búsett í Reykjavík þar sem hún stundar nám á alþjóðabraut við Menntaskólann við Hamrahlíð eða IB-nám eins og það kallast en þar er allt kennt á ensku og líkar Birgittu við það þar sem hún vill helst komst í háskólanám annars staðar en á Íslandi. Þegar hún var í grunnskóla langaði fjölskyldu hennar að prófa eitthvað nýtt og ákváðu þau að flytja til Spánar. Þar bjó Birgitta í um tvö ár og kynntist fullt af góðu fólki og stundaði nám bæði við enskan og spænskan einkaskóla. Eftir útskrift á Spáni kom hún aftur til Íslands til þess að klára menntaskólann og verður hún stúdent nú í sumar.
Víkurfréttir fengu að forvitnast nánar um áhugamál Birgittu og eftirlætis hlutina hennar.
Áhugamál
Ferðast, fara í yoga og eyða tíma með vinum og vandamönnum.
Kvikmyndin
Þær eru rosalega margar en ég hef sérstaklega mikinn áhuga fyrir spennumyndum.
Sjónvarpsþáttur
Pretty Little Liars
Tónist/hljómsveit
Alls kyns tónlist sem hressir mann upp og fær mann til að vilja dansa.
Skyndibiti
Subway
Drykkur
Appelsínu Toppur
Matur
Matur móður minnar
Hlutur
Ég veit nú varla hvar ég yrði án símans míns.
Flík
Sumarflíkur mínar sem ég klæðist þegar ég er á Spáni að heimsækja fjölskyldu mína.
Myndir Arnar Geir Kárason