„Fæ engin svör“
-Hildigunnur Guðmundsdóttir er einstæð móðir í Reykjanesbæ sem blöskrar munur milli sveitarfélaga á niðurgreiðslum vegna dagvistunar.
Reykjanesbær stendur ekki undir nafni sem fjölskyldubær, það er altjent skoðun Hildigunnar Guðmundsdóttur, einstæðrar móður sem er á leið út á vinnumarkaðinn eftir fæðingarorlof. Í samtali við Víkurfréttir segir hún niðurgreiðslur vegna vistunar hjá dagforeldrum í Reykjanesbæ ekki vera í líkingu við það sem gengur og gerist í flestum öðrum sveitarfélögum og geri einstæðum mæðrum nær ómögulegt að koma undir sig fótunum.
„Ég flutti aftur til Reykjanesbæjar í fyrrasumar því ég var ólétt og vildi vera nálægt fjölskyldunni minni og fékk þá bréf frá bæjarstjóra þar sem hann bauð mig velkomna í bæinn. Þegar fæðingarorlofið mitt kláraðist fann ég mér dagmömmu sem mér leist vel á og sótti í framhaldinu um niðurgreiðslur en áttaði mig þá á því hvað bærinn leggur lítið fram til einstæðra foreldra miðað við önnur sveitarfélög. Ég sendi bæjarstjóra þá póst þar sem ég bað um skýringar á þessum málum, en ég hef ekkert svar fengið enn,” segir Hildigunnur og er greinilega mikið niðri fyrir.
Framlag Reykjanesbæjar vegna dagvistunar barns í heimahúsi eru 11.000 krónur ef miðað er við heilsdagsvistun, en ef tekjur foreldra/foreldris eru undir 130.000 gefst réttur á aukaframlagi að upphæð 10.000 krónur. Til samanburðar er framlag Kópavogsbæjar 25.410 kr., Reykjavík og Árbær greiða 25.520, Hafnarfjarðarbær 32.850, Akureyrabær 20.000 og í Garðabæ borgar einstæð móðir 20.000 kr. til dagmömmunar og bærinn borgar niður rest. Í öllum tilvikum er miðað við einstætt foreldri og heilsdagsvistun með þremur máltíðum.
Hildigunnur hefur sett upp dæmi þar sem hun segir aðstæður einstæðra mæðra koma glögglega í ljós. Þar sem dagmamma tekur 215 kr. á tímann, eða 1.935 á dag, er hægt að gera ráð fyrir 22 dögum að meðaltali í mánuði sem myndi þýða 42.570 kr. á mánuði og 1000 kr. aukalega hvern mánuð ef maður vill koma með barnið kl 7.45 og sækja 17.15. Morgunmatur kostar 3.500, hádegismatur 5.700 og síðdegiskaffi 3.500 kr.
Í heildina eru þetta 56.270 krónur á mánuði, eða 45.270 að frádregnum 11.000 krónunum. „Tökum einstæða móður með eitt barn sem dæmi og reiknum með að hún hafi 130.000 í heildartekjur yfir mánuðinn. Hún þarf að borga 45.270 til dagmömmu og um 25.000 krónur í tryggingar af bílnum, lífeyrissparnað, skuldabréf, hita og rafmagn. Svo bætist á húsaleiga, sem gæti verið um 35.500 kr í leigu að frádregnum húsaleigubótum. Þannig á hún eftir 24.230 til að fæða sig og barnið út mánuðinn! Ég sé ekki hvernig fólk á að fara að því að lifa af slíku,” segir Hildigunnur.
Hildigunnur vinnur hjá fyrirtæki föður síns þessa dagana þar sem hún býður eftir svörum við umsóknum um atvinnu, en hún sótti um hjá fyrirtækjum bæði í sínum heimabæ og á höfuðborgarsvæðinu. Hún telur erfitt að koma undir sig fótunum í Reykjanesbæ við núverandi aðstæður og sér jafnvel fram á að flytjast aftur á höfuðborgarsvæðið. Auk þess viti hún um fleiri sem eru í slíkum hugleiðingum.
„Auðvitað langar mig til að búa hér nálægt fjölskyldunni minni, en það renna á mann tvær grímur þegar svona er búið að. Það eru allt önnur tækifæri sem íbúar til dæmis í Hafnarfirði eru að fá,” bætir Hildigunnur við og telur jafnvel að bæjarbúar átti sig ekki á þessum aðstöðumun sem er á milli bæja.
„Það sem ég vil eru svör við því af hverju Reykjanesbær er svona eftirá í þessum efnum og hvort þetta muni breytast til batnaðar, en ég er ekki bjarstýn á það. Það virðist sem Reykjanesbær sé að skera niður á fleiri stöðum því að þegar ég var í námi í bænum síðasta vetur afnámu þeir ferðastyrk til námsmanna. Það virðast samt vera til peningar til að láta bæinn líta vel út með hellulagðar götur og fín götuljós. Manni finnst þetta skrítið í bæ sem gefur sig út fyrir að vera fjölskylduvænan, eða er verið að hvetja fólk með lægri tekjur að flytjast burt?” spyr Hildigunnur að lokum.
Texti og mynd/Þorgils Jónsson, [email protected]