Eyfi heldur tónleika í Sandgerði og í Keflavík
Tónlistarmaðurinn Eyjólfur Kristjánsson heldur tónleika í Sandgerði og í Keflavík 21. og 22. sept. Tónleikarnir eru hluti af afmælistónleikaröð kappans sem varð fimmtugur í vor. Tónleikarnir í Sandgerði verða í safnaðarheimilinu og í Keflavík verða þeir á Kaffi Duus.
Í tilefni tímamótanna hélt hann í mikla tónleikaferð og mun halda 50 tónleika víðsvegar um Ísland. Hann hélt 25 tónleika í vor og mun halda 25 tónleika með haustinu. Eyfi fer yfir ferilinn og spjallar á léttu nótunum við tónleikagesti og öll hans bestu lög (Álfheiður Björk, Nína, Ég lifi í draumi, Kannski er ástin, Danska lagið, Góða ferð, Ástarævintýri (á Vetrarbraut), Dagar, Allt búið, o.m.fl.) munu hljóma í ferðinni. Þetta er í fyrsta sinn, sem Eyfi fer tónleikaferð um landið í nokkuð langan tíma og er til efs að nokkur íslenskur tónlistarmaður hafi farið í svo viðamikla tónleikaferð eins og hófst í mars s.l.
„Ég er spenntur fyrir því að koma til Suðurnesja. Þar á ég marga góða vini og aðdáendur og vonast til að halda góða tónleika,“ sagði afmælisbarnið í samtali við Víkurfréttir.
Miðaverð á tónleikana er kr. 2.000 og er miðasala við innganginn, tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 í kvöld og á morgun.