Eurovisionstjarna undir vatnsboga
Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og allir hinir Eurovisionfararnir komu til landsins nú um miðjan dag með þotu Icelandair frá Kaupmannahöfn. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Páll Magnússon, útvarpsstjóri, tóku á móti hópnum í Leifsstöð. Áður höfðu slökkviliðsmenn úr Slökkviliði Keflavíkurflugvallar sprautað vatnsboga yfir vélina, líkt og þegar silfurhafarnir af Ólympíuleikunum komu til landsins. Boðað hefur verið til móttökuhátíðar á Austurvelli í Reykjavík síðdegis. Ljósmyndari Víkurfrétta var í Leifsstöð og tók meðfylgjandi myndir.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson