Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Erum með bogann of spenntan
Sunnudagur 19. apríl 2020 kl. 13:33

Erum með bogann of spenntan

Guðbergur Reynisson er framkvæmdastjóri og eigandi Cargoflutninga ehf. Hann fékk lánað spinninghjól til að halda sér í formi á meðan líkamsræktarstöðvar eru lokaðar. Einnig fer hann út að skokka, ganga og hjóla.

— Hvernig varði fjölskyldan páskunum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við vorum öll mikið hér heima og nánast kláruðum verkefnalistann sem hefur safnast upp á heimilinu síðustu tvö ár. Meira segja búinn að mála svefnherbergið. En það bætist eitthvað við, vittu til.

— Hvernig páskaegg fékkstu og hver var málshátturinn?

Nóa nr. 4 og málshátturinn var „Mikill vill meira.“

— Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Heimurinn mun breytast við þessa veiru þar sem ekki verður eins aðkallandi að fólk þurfi að ferðast lengri og styttri vegalengdir fyrir stutta stjórnarfundi, t.d. getur klukkutímafundur tekið 2,5 klst. með akstri til og frá og samtölum eftir fund, með Teams, Zoom eða FaceTime tekur hann kannski bara 45 mín og þú ert heima hjá fjölskyldunni.

— Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Davíð Oddsson, þarf að spyrja hvers vegna? Ef hann svarar ekki þá Leoncie. Hún gæti kennt okkur ótrúlega bjartsýni og hleypt brosi inn í lífið eftir erfiða tíma.

— Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Þetta er verkefni sem þarf að klára, og betra að segja lengra en styttra, ég hef bara miklar áhyggjur af öllum fyrirtækjunum sem gætu misst tökin og lokað en við verðum bara öll sem samfélag að taka þátt og vera tilbúin að rísa hratt upp þegar við sjáum fyrir endann á þessu.

— Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Að við erum með bogann of spenntan, maður á alltaf að eiga varasjóð. Ekki það að ég eigi varasjóð en það er aðdáunarvert hve vel ríkisvaldið er í stakk búið. Svo er spurningin hversu langan tíma tekur þetta, sjóðir geta tæmst. Þurfum líka að taka á þessu með yfirvegun, að missa kúlið hjálpar engum það er öll heimsbyggðin sem er flækt í vandamálið. Nú, frekar heldur en nokkurn tímann, þarf að hugsa út fyrir boxið.

— Ertu liðtækur í eldhúsinu?

Ég kann á uppþvottavélina og set í hana og tek úr henni þegar Elsa segir að þess þurfi. Veit svona 75% hvar allt á að vera í eldhússkápunum og finnst ótrúlega skemmtilegur ratleikur að finna hvar restin á að vera. Ég held að Elsa leiki sér að því að færa hluti til.

— Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Lamb Bearnaise og franskar en fæ alltof sjaldan.

— Hvað var í páskamatinn?

Lamb, kalkúnn og meðlæti að hættu Elsu minnar. Hún er meistarakokkur.

— Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Eggjabrauð og Macaroni Cheese-stangir frá Costco með helst fimm tegundir af köldum sósum og kalt vatn með.

— Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Snúðar með glassúr sem hurfu fljótar en tók Elsu að baka þá, enda fimm svangir úlfar á heimilinu sem Elsa þarf að halda gangandi.

— Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Ég held að ég myndi taka tíma og velja eitthvað ódýrt og heilsusamlegt en Elsa segir að ég myndi eyða þessu öllu i súkkulaði.

— Hvað hefur gott gerst í vikunni?

Þær fregnir að við værum kominn á topp kúrvunar vegna COVID-19 smita sem kom mér reyndar á óvart ég hélt að hér yrði tilkynnt um útgöngubann í tvær vikur yfir páskana.

— Hvað hefur vont gerst í vikunni?

Það að fólk sé ekki að fara eftir tilmælum Almannavarna að halda sig heima. Held reyndar að þríeykið hafi gefið út rétt fyrir páska að það sæi fyrir endann á COVID-19, svo Íslendingar gerist kærulausir og smithraðinn aukist. Smá svona samsæriskenning þar sem umtalið var að smithraðinn væri ekki nógu hraður.

— Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?

– Ertu að stunda einhverja hreyfingu heima eða útivið núna þegar fólk er í sóttkví og líkamsræktarstöðvar lokaðar?

Já, ég fer út að skokka, ganga og hjóla og Vikar lánaði mér spinninghjól heim en spurningin hvernig það gengur vil ég alls ekki fá!

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR