Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ertu nettengd?
Laugardagur 29. september 2018 kl. 06:00

Ertu nettengd?

Víkurfréttir spurðu eldri konur og ungar stúlkur út í snjalltækja- og tölvunotkun

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig það gengur fyrir gamla fólkið okkar, eldri borgara að aðlagast öllum þeim breytingum sem þjóðfélagið okkar er að ganga í gegnum og þá aðallega með tilliti til tæknibyltingarinnar. Svo ég ákvað að fara af bæ og heimsækja Nesvelli. Fjórar hressar konur voru einmitt að borða saman á Nesvöllum og tóku blaðamanni hlýlega. Þær eru allar búsettar á Nesvöllum og hrósa því mjög að búa þarna. Hvað segiði konur, eruð þið komnar á fullt í tæknina?



Grethe Iversen er 74 ára:


Mig langar ekkert í þetta tæknidót

„Ég hefði átt að vera uppi fyrir hundrað árum þegar það var engin farsími og engin tölva. Ég á eldgamalt túbusjónvarp sem ég horfi mjög sjaldan á því mér finnst skemmtilegra að lesa og spila á spil. Mig langar ekkert í þetta tæknidót og hef bara áhyggjur af börnunum okkar hvernig þau verða af allri þessari tækni. Jú jú, auðvitað er einnig margt jákvætt við tæknina en ég vil vera með fólki“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Bára Helgadóttir er nýorðin 80 ára:

Aldrei haft þörf fyrir tölvu

„Nei ég er ekki með neina tölvu og hef aldrei haft þörf fyrir svoleiðis tæki. Mér finnst mjög gott að koma hingað á Nesvelli og vera í félagsskap fólksins hérna. Gott samfélag og svo er maturinn mjög góður, ekta heimilismatur.“



Elín Guðrún Ingólfsdóttir 93 ára:

Hef aldrei átt tölvu

„Ég hef aldrei átt tölvu, þarf þess ekki. Ég fer út á hverjum morgni í gönguferð þegar viðrar vel og held mér þannig í formi. Jú ég er með sjónvarp og hlusta á hljóðbækur en ég les einnig hefðbundnar bækur fram til ellefu á kvöldin. Ég prjóna ennþá en er samt hætt að sauma. Hérna er góður félagsskapur og við hittumst einnig nokkrar konur snemma á kvöldin hér. Alltaf svo notalegt að spjalla“.



Sigríður Erla Jónsdóttir 83 ára:

Á tölvu og ipad

„Já já ég á tölvu og ipad og var að fá nýjasta símann, svona snjallsíma og er að læra á hann. Yfirleitt opna ég ekki tölvuna og er ekkert á facebook þó ég hafi verið sett þangað inn einu sinni. Nei, nei, ég er að dansa hérna á Nesvöllum með Eygló hringdansa og allt mögulegt. Svo fer ég í bingó heima og að heiman, spila félagsvist og svona. Labba í Nettó og versla, heimsæki fólk og horfi á sjónvarp en get voða lítið lesið í bók en væri til í að hlusta á hljóðbækur“.



Konurnar búa allar á Nesvöllum og segja yndislegt að vera þar. Alltaf verið að gera eitthvað skemmtilegt með íbúunum og öðrum gestum sem koma þangað. Á hverjum föstudegi er skemmtun með tónlist og söng en þá koma skemmtikraftar í sjálfboðastarfi sem vilja gleðja íbúana. Fólk sem tekur ekkert fyrir að gleðja eldri borgara.

Eitt leiddi af öðru, nú langaði mig að vita hvernig ungu stelpurnar tækla netheima. Ég vissi auðvitað að þær væru allar nettengdar en auðvitað hefði verið spennandi að hitta eina sem ekki var nettengd en það er bara útópískur draumur á þessum tímum. Ég fór inn í matsal Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hitti hressar stelpur sem voru allar til í smá spjall við Víkurfréttir.



Tanja Ýr Ásgeirsdóttir 18 ára:

5 til 6 klukkustundir á dag í sjalltækjum

„Ég á fartölvu, ipad og snjallsíma og nota þetta allt saman, jafnvel 5 til 6 klukkustundir á dag. Tölvuna nota ég í skólann og einnig til þess að tala við fólk sem er langt í burtu, td. ættingja og vini sem búa ekki nálægt mér. Já ég er örugglega háð þessari tækni, sérstaklega símanum mínum og er alltaf að tjékka á skilaboðum eða fletta snappi og svoleiðis. Maður umgengst fólk auðvitað öðruvísi í gegnum netið og hittir það kannski aldrei. Mér finnst samt skemmtilegast að hitta fólk í eigin persónu. Ég fer á böll og skemmtikvöld og svona til þess að hitta aðra.“



Helga Sif Árnadóttir 18 ára:

Slekk á símanum í hádegismatnum

„Ég á fartölvu og snjallsíma. Ég hef aldrei tekið neitt sérstaklega á þessari notkun minni. Ég gæti örugglega ekki sleppt símanum heilan dag en hef prófað í tvær klukkustundir en var rosa fegin að opna fyrir símann aftur. En þegar ég fer í mat hérna í skólanum þá slekk ég yfirleitt á símanum því mér finnst skemmtilegra að tala við krakkana í matnum“.



Kristín Fjóla Theódórsdóttir 18 ára:

Fíla betur að lesa venjulegar bækur úr pappír

Ég á fartölvu og snjallsíma og einnig lestrartölvu en ég fíla samt miklu betur að lesa venjulegar bækur úr pappír. Já ég myndi segja að ég hafi stjórn á notkun minni og hef pælt í þessu og hef meira að segja skrifað ritgerð um snjallsímanotkun. Mér finnst auðvitað fólk mikilvægara en tölvur. Það er hægt að eingangrast í símanum þótt maður sé að tala við fólk þar. Stundum er síminn eins og eitthvað öryggi og leið til að slappa af“.



Kristín Lilja Sölvadóttir 19 ára:

Var háð snjallsímanum en ekki lengur

„Ég á fartölvu, ipad og snjallsíma. Ég hlusta mest á tónlist í símanum mínum, horfi á myndir þegar ég er að skrifa um eitthvað en mér finnst vont að vinna í þögn. Það hafa komið tímar þegar ég opna ekki tölvuna í tólf klukkustundir. Var háð snjallsímanum en ákvað svo að stjórna þessu svo ég gæti einbeitt mér betur td. í náminu.