Ert þú mannvitsbrekka?
Spurningakeppni UMFN í kvöld.
Njarðvíkingar standa fyrir svokölluðu Pub quiz í Ljónagryfjunni í kvöld. Þar verður slegið á létta strengi og bornar upp spurningar um allt milli himins og jarðar. Aðallega verður þó fjallað um körfubolta, tónlist og almenna vitneskju. Steven Lennon leikmaður knattspyrnuliðs Fram býr sennilega ekki yfir henni, ef marka má formann knattspyrnudeildar Fram.
Veglegir vinningar verða í boði en þar má nefna miða á Bikarúrslitaleiki KKÍ sem fram fara á morgun og ársmiða á þá heimaleiki sem eftir eru í Ljónagryfjunni. Nýjasti liðsmaður Njarðvíkinga í fótboltanum, Guðmundur Steinarsson ætlar svo að gefa árituð eintök af DVD diski sínum GS#9.
Veigar í fljótandi formi verða í verðlaun en bæði er um að ræða mjöð og hinn meinholla drykk Hleðslu. Einnig ætlar Ungó ætlar að splæsa pizzu og kók á sigurvegarana. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir en fjörið hefst klukkan 20:30.