Erlingskvöld á fimmtudagskvöld
Einn vinsælasti menningarviðburður Bókasafnsins er Erlingskvöld sem haldið er til heiðurs fyrrum bæjarlistarmanni Keflavíkur, Erlingi Jónssyni. Að þessu sinni fer Erlingskvöld fram fimmtudagskvöldið 30.mars á fæðingardegi listamannsins og hefst dagskráin klukkan 20.00 í Bókasafni Reykjanesbæjar. Rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Óskar Magnússon og Pedro Gunnlaugur Garcia lesa úr verkum sínum auk þess sem Djasshljómsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilar nokkur lög en húsið opnar klukkan 19:45.
Auður les upp úr nýjustu bók sinni Eden en bókin var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir árið 2022. Óskar les upp úr nýjustu bók sinni Leyniviðauki 4 en sögusvið bókarinnar er m.a. gamla herstöðin á Miðnesheiði. Að lokum les Pedro Gunnlaugur upp úr nýjustu bók sinni Lungu sem kom út fyrir jólin 2022 og hlaut Pedro nýverið íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bókina.
Boðið verður upp á kaffi og konfekt og eru öll hjartanlega velkomin en húsið opnar klukkan 19:45.
Erlingskvöld er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.