Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Er svo ótrúlega stoltur af þessum duglegu dætrum mínum
Laugardagur 7. september 2024 kl. 06:09

Er svo ótrúlega stoltur af þessum duglegu dætrum mínum

Örn Ævar Hjartarson segir að umsýslan í kringum Íslandsmótið í golfi sem Golfklúbbur Suðurnesja hélt í sumar standi upp úr í sumar. Örn Ævar segir að Ljósanótt hefur verið svolítið eins og jólin hjá manni þar sem áherslan er að hitta á vini og fjölskyldu og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Hvernig varðir þú sumarfríinu? Sumarfríið mitt, eins og á síðasta ári, hefur farið í sjálfboðavinnu fyrir Golfklúbb Suðurnesja þar sem ég sé um, ásamt góðu fólki, skipulagningu og utanumhald á golfmótum klúbbsins. Einnig skruppum við hjónin í tvær stuttar ferðir til London og Mílanó aðeins til að hvíla huga og sál.

Hvað stóð upp úr? Það sem stóð upp úr á þessu sumri verður að teljast umsýslan í kringum Íslandsmótið í golfi sem Golfklúbbur Suðurnesja hélt í júlí. Mótið og umgjörðin heppnaðist frábærlega og var ótrúlega gaman að sjá alla vinnuna sem við lögðum á okkur í klúbbnum verða að veruleika og okkur í Golfklúbbi Suðurnesja til mikils sóma. Þarna sýndum við hversu öflug við erum að taka að okkur og framkvæma mót að þessari stærðargráðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það kemur mér alltaf á óvart hvað breytingar, sama hversu litlar þær eru, geta stuðað fólk í kringum mig og alltaf skemmtilegt að sjá þegar breytingar verða til hins betra.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands? Skorradalurinn hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en þar átti tengdafjölskyldan sumarbústað sem við reyndar seldum síðasta vetur.  Það var skrítið að fara ekkert í dalinn í sumar.  Það er alltaf gaman að koma á golfvelli landsins í góðu veðri og höfum við hjónin reynt að prófa einhverja nýja staði síðustu sumur.

Hvað ætlar þú að gera í vetur? Veturinn mun aðallega fara í vinnu með flotta samstarfsfólkinu mínu og í Sandgerðisskóla og að safna minningum með vinum og fjölskyldu. Svo er alltaf á listanum að koma sér í betra form en það hefur ekkert gengið neitt svakalega vel síðustu ár.

Hvernig finnst þér Ljósanótt? Ljósanótt hefur verið svolítið eins og jólin hjá manni þar sem áherslan er að hitta á vini og fjölskyldu og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt? Við förum árlega á tónleika t.d. Heimatónleikana eða Í Holtinu heima en þetta ár munum við hjónin fara á útgáfutónleika Rolf Hausbentner Band á fimmtudagskvöldinu í Berginu, kíkja á myndlistasýningar, fara í súpu hjá Gullu systur á laugardagskvöld og kíkja niður í bæ eftir það og sjá tónlistaratriðin á sviðinu.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt? Skemmtilegasta minningin mín er líklega sú þegar dætur mínar voru að taka þátt í hátíðarhöldunum, eldri dóttirin, Þórhildur Erna, að dansa með flotta Danskompaní-hópnum og yngri dóttirin, Ásta María, að vinna á fullu í fjáröflunarsölu á hátíðarsvæðinu. Ég er svo ótrúlega stoltur af þessum duglegu dætrum mínum.