Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Er sósumeistarinn á heimilinu
Laugardagur 14. desember 2013 kl. 09:00

Er sósumeistarinn á heimilinu

Þórður Helgi Þórðarson, Doddi litli, er dagskrárgerðarmaður og tæknimaður á Rás 2 og ólst upp í Njarðvík.

Þórður Helgi Þórðarson, Doddi litli, er dagskrárgerðarmaður og tæknimaður á Rás 2. Hann á þrjú börn sem hjálpa honum við að halda í jólabarnið í sér sem hann annars væri ekki. Hann segir þau þó aðeins misskilja boðskapinn og hugsa bara um gjafir og skó í glugga.

Fyrstu jólaminningarnar?
Ég held að það sé jólagjöf sem ég fékk frá ömmu og afa í Kópavogi. Það var einhvers konar steypustöð með hrærivélum, vörubílum og öllu tilheyrandi, þar á meðal gervisandur úr plasti sem var fljótur að berast um allt hús. Amma (í Njarðvík, þar sem ég bjó) var alveg brjáluð. Einnig er mér í fersku minni mynd sem var tekin af mér sitjandi á gólfinu að horfa á sjónvarpið í fallegri hvítri skyrtu og rauðu prjónavesti og flauelsbuxum en ég var ekki í sokkum og var að reyna að fela á mér tærnar. Spéhræðsla á hæsta stigi.

Jólahefðir hjá þér?
Það gengur illa að skapa alvöru jólahefðir með minni fjölskyldu eins og grjónagrauturinn sem amma bauð alltaf upp á í hádeginu á aðfangadag. Börnin mín eru hrifin af grautnum en þeim dettur ekki til hugar að skella sér í pabbahefð og „gúffa“ grjónum. Það eru bara piparkökur (og hvað? Á maður að segja nei, þið borðið graut!)

Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Já ég myndi segja það, þar sæki ég kannski í hefðirnar á mitt gamla heimili. Afi var gífurlega duglegur á jólum og áramótum. Ég er og verð sósumeistarinn á mínu heimili en ég tek drjúgan þátt í eldhúsinu á jólum.

Jólamyndin?
Ég tók alveg 10-15 ár í Ebenezer Scrooge fíling eftir að ég flutti að heiman og losaði mig við allan jólaanda en með elli og börnum hef ég meyrnað og get með herkjum horft á eitthvað af barnaefninu með krökkunum. Þær jólamyndir sem ég man eftir núna og færa mér einhverja gleði eru Elf með Will Ferrell og Bad Santa með Billy Bob Thornton, sem er kannski ekki sú jólalegasta.

Jólatónlistin?
Þar hittirðu Hr. Scrooge, bahh hunbúkk! Mér finnst jólatónlist afskaplega leiðinleg með einstaka undantekningum. Nat King Cole jólaplatan er frábær, jóla-James Brown er stuð og Brunaliðsjólin er flott plata. Sú besta er frá Þremur á palli – Hátíð fer að höndum ein, það hefur væntanlega eitthvað að gera með hefðirnar frá Hlíðarvegi 5. Jú Enya er ljúf en aðrir fjölskyldumeðlimir telja hana tómt gaul.

Hvar kaupirðu jólagjafirnar?
Læt konuna fá veskið og er svo tvo mánuði að vesenast með hennar gjöf.

Gefurðu mikið af jólagjöfum? Allt of mikið.

Ertu vanafastur um jólin?
Ekki svo, í minni vinnu er ekki mikið um frí svo ég vinn oft mikið í kringum jólin en einu skiptin sem ég kaupi mér grafinn lax er um jólin og það er prýðis hefð.

Eitthvað sem þú gerir alltaf?
Nei, en það sem ég ætla alltaf að gera er að lesa bækurnar sem ég fæ í jólagjöf og hlusta á plöturnar sem ég fæ. Ég fæ aldrei bækur og börnin mín sjá til þess að ég er ekkert að fara leggjast og slaka á!

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Þetta er náttúrulega rugl spurning! Ég hélt að ég væri að fá bestu jólagjöf sögunnar í fyrra, plötuspilara. Hann var svo síðan algjört drasl og ég hef ekkert notað hann. Talandi um plötur, ég man að Krummi frændi minn gaf mér einu sinni Pretenders plötu í jólagjöf og ég skipti henni í plötu með Söndru og hann talaði ekki við mig í mánuði. Finnst alltaf vænt um þessa sögu og hef sagt hana oft.

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Því miður erum við föst í hamborgarhrygg (frúin ekki til í hreindýr).

Eftirminnilegustu jólin?
Ætli það séu ekki jólin þegar ég bjó á Langeyri við Súðavík sem var verbúð. Ég hafði ekki efni á því að fara heim til Njarðvíkur og ætlaði bara að fullkomna Ebenezer Scrooge fílinginn einn og yfirgefinn þegar Helen og Steini komu og heimtuðu mig í mat á aðfangadag sem var virkilega vel séð. Þá eru sérstaklega eftirminnileg jólin hjá ömmu og afa á unglingsárunum. Afi var alltaf með framandi og flotta rétti og allt til alls og svo hittumst við vinirnir alltaf í kirkju að kvöldi aðfangadags og bárum saman bækur okkar í jólagjafagróða og sungum svo hástöfum með kórnum.

Hvað langar þig í jólagjöf?
Plötuspilara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024