Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Er mjög þakklát“
Föstudagur 6. apríl 2018 kl. 06:00

„Er mjög þakklát“

Grindvíkingurinn Edda Sól Jakobsdóttir leikur aðalhlutverkið í leikritinu LoveStar sem Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir um þessar mundir. Sýningin hefur fengið frábæra dóma en Edda Sól hefur tekið þátt í fjórum uppfærslum leikfélagsins og er á sínu fjórða og síðasta ári við Menntaskólann á Akureyri.

Framtíðarsaga sem hægt er að tengja við nútímann
LoveStar er vísindaskáldsaga eftir Andra Snæ Magnússon sem kom út árið 2002, í rauninni er sagan tvær sögur sem fléttast saman. Hins vegar LoveStar, sem Edda Sól leikur og hin sagan er saga Indriða og Sigríðar sem eru algjörar andstæður LoveStar. „Karakterinn minn vill taka yfir heiminn, hugmyndirnar um það ná tökum á henni og græðgin er allsráðandi. LoveStar er forstjóri fyrirtækisins Lovestar en þar er meðal annars reiknað sálufélaga saman.“ Indriði og Sigríður eru mínímalísk, laðast að hvort öðru og eru mjög lík. „Það kemur þeim því mjög að óvart þegar þau fá einn daginn bréf frá fyrirtækinu um að þau hafi ekki reiknast saman og prufa þau þá að kljást við það á sinn eigin hátt. Andri Snær skrifar söguna þannig að hún gerist í framtíðinni en það má tengja við margt úr henni sem er að gerast í dag og er það algjörlega magnað.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Framtíðin óráðin
Edda Sól hefur tekið þátt í uppfærslum LMA frá því að hún var í 1. bekk Menntaskólans. „Fyrsta árið lék ég gamla konu í Rauðu myllunni, síðan hýenu í Konungi ljónanna, í 3. bekk lék ég Lillu í leikritinu Annie og núna á lokaárinu mínu leik ég LoveStar í LoveStar. Eddu Sól leist vel á verkið og ákvað því að slá til fjórða árið í röð og fara í áheyrnaprufu. „Ég hef verið í LMA öll árin svo ég gat auðvitað ekki sleppt því seinasta árið mitt því ég hef mjög gaman af leiklist.“
Eftir útskrift ætlar Edda Sól að fara í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri en framtíðin er annars óráðin. „Það kemur síðan í ljós hvað ég geri, mögulega eitthvað tengt leiklist, en hver veit, leiklist verður að minnsta kosti alltaf stór hluti af mér.“

Menntaskólaárin eiga að vera skemmtileg
Að sögn Eddu Sólar býður MA upp á frábært nám og félagslíf en það var ein af ástæðum þess að hún ákvað að fara norður. „Mig langaði líka til að gera eitthvað nýtt. Ég mæli með því að fara eitthvað í burtu í nám eins og til dæmis hingað til Akureyrar en þetta er auðvitað mjög persónubundið. Það ættu allir að velja menntaskóla eftir því hvað hentar þeim best og eftir áhugamáli en með því að fara í skóla ,,úti á landi“ lærir maður að redda sér, kynnist nýju fólki og þetta er mjög öðruvísi en maður er vanur en ótrúlega skemmtilegt. Ef einstaklingur sem íhugar að fara í annan skóla en í heimabyggð er fyrir félagslíf, bóklegt nám og nýjungar þá mæli ég með því að skoða MA. Menntaskólaárin eiga að vera skemmtileg og þau eru búin að vera meira en það hjá mér. Ég er allavega mjög þakklát.“