Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Er með nördalegasta flúr landsins
Föstudagur 30. mars 2012 kl. 11:02

Er með nördalegasta flúr landsins




Keflvíkingurinn Oddur Gunnarsson Bauer er 21 árs og stundar nám við tækniteiknun við Tækniskólann í Reykjavík. Í gær varð það ljóst að Oddi hefði hlotnast sá vafasami heiður að bera nördalegasta húðflúr landsins. Hann bar sigur úr bítum í keppni um nördalegasta flúrið en hann sigraði netkosningu á vefsíðunni Nörd Norðursins sem fjallar um tölvuleiki og tækni. Oddur hlaut 1.420 atkvæði en næsti maður var með 1.272.

„Ég tók þátt í þessari keppni vegna þess að vinur minn benti mér á hana, hann sagði að ef ég ætti ekki erindi í þessa keppni ætti það sennilegast enginn, sem var reyndar eitthvað sem ég sá að var ekki satt um leið og keppnin hófst, en það var mikið af flottum nördalegum flúrum þar.“ Sagan á bakvið húðflúr Odds er sú að þetta er fígúra úr tölvuleiknum The Legend of Zelda: Majoras Mask sem Oddur og vinur hans,  Gylfi Már Þórðarson hafa sennilegast spilað í gegnum svona 15 sinnum síðan leikurinn kom út árið 2000.

„Þetta er minn uppáhalds tölvuleikur og ég ákvað að sýna það í verki og fá mér vonda kallinn á öxlina. Það kemur þó síðan í ljós í leiknum að hann er ekkert vondur. Ég hvet fólk eindregið til þess að hafa upp á þessum leik, dusta rykið af gömlu Nintendo 64 tölvunni og spila í gegnum hann,“ sagði Oddur í stuttu spjalli við Víkurfréttir.

Við fengum Odd til þess að segja okkur hvernig hann ætlaði sér að verja helginni en þar kemur enski boltinn við sögu sem og WWE fjölbragðaglíma.

Föstudagur: „Byrja á því að renna niður í Tækniskóla og taka próf í þrívíddarteikningu í Revit Architecture. Síðan tek ég rútuna heim og kíki eflaust í Lífsstíl að lyfta. Síðan fer ég eflaust með kærustunni og vinkonu hennar á tónleika í Reykjavík.“

Laugardagur: „Á Laugardögum tekur enski boltinn við, ég er forfallinn stuðningsmaður Arsenal FC og hef eins og er ekki misst af einum einasta leik hjá þeim á tímabilinu, og það verður engin breyting á því á Laugardaginn. Arsenal tekur á móti Queens Park Rangers og mun ég halda heim til foreldra minna til þess að horfa á þetta með föður mínum, Gunnari Oddssyni. Síðan þegar Arsenal hafa tekið stigin 3 þá fer ég heim og við kærastan munum taka því rólega um kvöldið bara yfir einhverjum bíómyndum og Match of the Day kl. 21:20 á BBC One.“

Sunnudagur: „Sunnudagar eru frekar rólegir, ég mun sennilegast kíkja á leiki dagsins í enska, Newcastle – Liverpool og Tottenham – Swansea, hörkuleikir. Síðan mun ég um kvöldið fara með kærustunni og foreldrum mínum á „Gamli skólinn minn“ í Andrews Theater. Þegar heim verður komið er síðan komið að hápunkti helgarinnar, en þá verður hóað í strákana og horft á WWE WrestleMania 28 langt fram eftir nóttu,“ sagði Oddur að lokum.



Hér má sjá mynd af húðflúrinu fræga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024