Er í þessu til þess að sjá fólk blómstra
Sævar Ingi Borgarsson hjá Superform í viðtali
Nú er sá tími ársins þar sem fólk fer oftar en ekki að huga að breyttum lífsstíl. Það vakti athygli nú á dögunum að Superform Áskorun sem fram fer í Sporthúsinu fylltist á aðeins rúmum sólahring. Við ákváðum að heyra í Sævari Inga, eiganda Superforms og forvitnast aðeins um þennan mikla áhuga á keppninni.
Sævar Ingi Borgarsson hefur upplifað margar breytingar og byltingar í heilsugeiranum. Hann hóf sjálfur að stunda líkamsrækt og lyftingar eftir að ferli hans lauk í fótboltanum í kringum aldamótin. Þar hafði hann ítrekað verið að glíma við meiðsli og þurfti að gangast undir fjölda aðgerða. „Ég fór í fjórar hnéaðgerðir og fótbrotnaði sex sinnum á ferlinum,“ segir Sævar pollrólegur. „Það er harka og læti í þessu og mikið um tæklingar,“ bætir hann við. Eftir að hann hætti í boltanum fór hann að hugsa til þess hvernig hann gæti haldið áfram að hreyfa sig. „Ég þurfti að finna leið til þess að losa um orku, en af henni hafði ég nóg.“ Hann fór því í líkamsræktina þar sem hann fór fljótlega að láta að sér kveða í kraftlyftingum og Icefitness þar sem hann vann til fjölda verðlauna. Hann segist hafa hætt allri keppni eftir að hungrið hvarf og þá sneri hann sér að þjálfun. Hann fékkst við einkaþjálfun í langan tíma og á endanum fór það svo að hann hannaði sitt eigið æfingakerfi.
Hann hafði hugsað til þess að þróa æfingakerfi þar sem hann gæti sameinað þrjá þætti. Fyrir það fyrsta vildi hann kenna fólki hvernig það ætti að hreyfa sig. Hann vildi að æfingarnar yrðu fjölbreyttar og skemmtilegar, auk þess sem hann lagði mikið upp úr því að félagslega hliðin væri til staðar. Að fólk myndi búa til vinatengsl og finna fyrir krafti fjöldans. Þannig fæddist Superform.
Æfingarnar í Superform byggjast á lyftingum með ketilbjöllum, æfingateygjum og ýmsum fjölbreyttum æfingum. Unnið er í skorpuþjálfun eða sekúndum þar sem unnið og hvílt er í fyrirfram ákveðinn tíma. „Aðalatriðið er að fólk fari að hreyfa sig. Geri það á sínum hraða og eftir sinni getu. Það er orðin svo mikil vitundarvakning hjá fólki að hreyfa sig,“ segir þjálfarinn Sævar.
Brjáluð aðsókn í áskorendakeppni
Þau í Superformi hafa undanfarin ár haldið sérstaka áskorendakeppni þar sem vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegara. Sævar segir gríðarlegan áhuga vera á keppninni og nú síðast hafi verið fullbókað á rúmum sólarhring eins og áður kom fram. Alltaf hefur verið uppselt. „Mér er illa við eitthvert 12 vikna átak. Þannig að það sem við erum að gera með þessu er að hvetja fólk til þess að nota þennan tíma til þess að byrja á einhverju stærra. Halda áfram að hreyfa sig og borða með meðvitund. Við viljum að fólk horfi á stóru myndina sem er breyttur lífsstíll.“
Er í þessu til þess að sjá fólk blómstra
Sævar segir að nýlega hafi verið ákveðið að bjóða unglingum upp á æfingarnar í Superformi líka en hann telur mikilvægt að kenna ungu fólki snemma rétta líkamsbeitingu og ekki síður undirbúa það fyrir líkamsræktarstöðvarnar. „Þegar krakkar eru að hætta í íþróttum þá er líkamsræktarstöðin oft næsti viðkomustaður. Þau eru oftar en ekki óundirbúin undir það sem þar fer fram því lyftingar eru ekki kenndar á grunnskólastiginu. Við viljum byggja þau þannig upp að það sé auðveldara að taka þetta skref að fara í ræktina. Ásamt því að vera með þau í Superform ákváðum við að bjóða krökkunum upp á hóptíma einu sinni í mánuði sem eru í boði í Sporthúsinu eins og spinning, Foam Flex, Yoga og margt fleira. Með því náum við að víkka út sjóndeildarhringinn og kynna fyrir þeim fleiri möguleika á hreyfingu. Fyrir flesta sem hafa ekki hreyft sig þá er þetta bara rosalega stórt skref.“ Sævar segir að það gefi sér mikið sem þjálfara að hjálpa krökkum að breyta um lífsstíl og ná árangri.
„Maður er í þessu til þess að sjá árangur hjá fólki. Hvort sem það nær að vinna á stoðkerfisvanda, losa sig við einhver kíló eða auka styrk. Að sjá fólk sem hefur enga trú á sér sem blómstrar svo algjörlega. Það er ánægjan sem maður fær út úr þessu.“
Ætlar sér að verða osteopati
Sævar er núna að læra að vera osteopati og stundar nám í Svíþjóð þar sem hann er með annan fótinn. Starfsvið osteopata mætti kannski útskýra sem hnykkjara og sjúkraþjálfara með greiningarþætti bæklunarsérfræðings. Íþróttafólk leitar í miklu magni til osteopata og hyggst Sævar starfa á þeim vettvangi í framtíðinni auk þess að halda áfram með Superformið.
Hvað myndir þú ráðleggja þeim sem sitja núna heima og vilja koma sér af stað í hreyfingu?
„Aðalatriðið er að byrja á markmiðasetningu. Maður verður að vera tilbúinn að breyta um lífsstíl en ekki fara í átak í nokkrar vikur. Það þarf að vera vilji og löngun en ekki bara harka, þú tekur ekkert á hörkunni einni saman. Þú getur þó notað hörkuna til þess að koma þér yfir erfiðustu hjallana í þessu,“ segir Sævar að lokum.