Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Er ekki allt í lagi elskan?
Mánudagur 5. mars 2012 kl. 09:51

Er ekki allt í lagi elskan?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Tjáskipti manna á milli geta verið flókið fyrirbæri, sérstaklega ef við höfum það í huga að orðin ein og sér hafa lítið vægi, já sérfræðingar segja innan við 10%. Annað sem vegur þarna upp á móti eru svipbrigði, líkamsstaða, beiting vöðva, andardráttur, beiting raddar, látbragð og augnsamband.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég var nokkuð viss um að ég hefði þann einstaka hæfileika að geta lesið hugsanir, í líkamstjáningu, svipbrigði og þagnir. Ég ,,vissi“ t.d. hvað fólk var að hugsa um mig og vinkonu mína þar sem við sátum í strætó á leið á dansæfingu og horfðu á nýju, allt of háu dansskóna mína með korkfylltu hælunum. Þá átti ég til að segja eitthvað að fyrra bragði eins og ,,þið getið bara sjálf verið í hallærislegum skóm“ því ekki ætlaði ég að láta fólk komast upp með svona lagað. Þegar vinkona mín hafði verið hárgreiðslumódel í eitt skiptið og sat uppi með tyggjóbleikt hárið, las ég umsvifalaust í tjáningu fólks hvar sem við vorum. Þannig gátum við verið að labba niður Laugaveginn þegar við mættum fólki sem missti andlitið yfir þessum óvenjulega háralit og þá las ég strax hvað var í gangi, vatt mér jafnvel að manneskjunni og sagði ,,ég held að þú ættir bara að fara heim til þín og gera eitthvað smekklegt við eigið hár“. Elsku vinkona mín mátti þola mikið á þessum árum - sorry elskan!!

Misskilningur í samskiptum er algengari í dag en áður því meirihluti þeirra á sér stað í gegnum síma, sms, tölvupóst, msn og Facebook. Það ættu allir að vera meðvitaðir um að einföld sms eins og: ertu upptekin? kallar á mismunandi svör. Þannig þýðir: já (ég er upptekin - hringi á eftir) en svarið: JÁ!! (stórir stafir og upphrópunarmerki) þýðir: JÁ AUÐVITAÐ ER ÉG UPPTEKIN OG HÆTTU AÐ TRUFLA MIG!
Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvernig það talar í símann en það sem skiptir mestu máli er hvernig maður svarar þegar það er hringt í mann. Sá sem svarar: jaaaá með semingi, á bara alls ekki að vera að svara yfir höfuð því svona svar þýðir bara eitt: hringir hún, ég nenni ekki að tala við hana svo ég svara bara eins og ég sé með rýting í bakinu að taka síðasta andardráttinn í þessu lífi.

Eigum við eitthvað að ræða þá sem kveðja ekki, þú heyrir ekki ,,blessið“ því viðkomandi er búinn að skella á í miðju bless-inu og maður situr eftir gjörsamlega frosin með eitthvað bleeeee í eyrunum sem má túlka: loksins er ég laus við hana úr símanum!!
Facebook býður upp á allskonar misskilning og túlkanir. Breytilegir og opnir statusar sem gera manni mjög erfitt fyrir og í sömu vikunni getur staðið hjá sama einstaklingnum: einhleypur, í sambandi, í opnu sambandi eða, þetta er flókið. Maður er rétt búin að sjá fyrir sér ástfangna parið í opnu og yndislegu sambandi, þegar fyrir hugskotssjónum manns blasa flækjur, gildrur og öngstræti. Svo er ,,potið“ alveg kafli út af fyrir sig og má túlka: hei þú ert áhugaverð kona og mig langa til að kynnast þér....yfir í: sit hér einn heima og hafði ekkert betra að gera en að ,,pota“ hingað og þangað til að athuga viðbrögðin!! Og þegar maður ,,potar“ fimm sinnum í einhvern er maður þá ekki að búa til gatasigti?

Samskipti kynjanna geta verið flókin og í raun ótrúlegt að karlmenn átti sig ekki á því augljósa eins og þegar þeir segja: heyrðu elskan, ég var að hugsa um að skreppa út í nokkra bjóra með strákunum í kvöld, er þér ekki sama? (þýðing: ég þarf að komast einn út núna, hrynja í það með strákunum, ímynda mér að ég sé aftur orðinn átján ára og einhleypur). Þegar hún svarar: jú, jú, drífðu þig, þú hefur gott af því (þýðing: auðvitað er mér ekki sama, á eftir að sitja hér heima og ímynda mér að þú sért farinn að skoða tattúið á bringunni á gömlu kærustunni úr menntó, og þess vegna get ég lofað þér að ég mun búa um þig í sófanum þar sem þú getur ,,drepist“ þegar þú kemur sauðdrukkinn heim í morgunsárið. Búðu þig undir næstu daga í frosti vinur). Það sama á við þegar karlmenn finna á sér að eitthvað er ekki eins og það á að vera og spyrja: er ekki allt í lagi elskan? Ef svarið er: AUÐVITAÐ er allt í lagi, HVAÐ ætti svo sem að vera að!! þýðir það að sjálfsögðu: það er ekkert í lagi því þú gleymdir a) afmælinu mínu, b) trúlofunardeginum okkar, c)brúðkaupsdeginum okkar, d) Valentínusardeginum og konudeginum, e) sérðu ekki að ég var að klippa mig, o.s.frv.
Tjáskipti geta svo sannarlega verið flókin en galdurinn er líklega sá að spyrja ef maður er ekki viss um hvað er í gangi. Hugurinn getur farið með mann á ótrúlegt ferðalag og misskilningur á oftar en ekki rætur í óskýrum skilaboðum eða hugsanavillum þar sem við erum að lesa kolrangt í hlutina. Skilaboðin mín eru skýr - við getum ekki lesið hugsanir og því er farsælast að ræða málin þegar við erum í vafa. Ef það gengur ekki upp er bara eitt til ráða - fjárfesta í textavél!


Þangað til næst - gangi þér vel
Anna Lóa